Tilkynning

Á fimmtudaginn mun hér birtast á blogginu eitthvert magnaðasta "næst-um-því" sanna ritverk sem komið hefur út í áraraðir. Sagan heitir "Hænsna Þóris saga" og fjallar um sorgir og sigra.... svik og pretti... ástar og hamingju. Sagan er um Hænsna Þóri en fullt af öðrum landsþekktum persónum koma einnig við sögu, svo sem Heiðrún drottning, Sigurbjörn lýsingarmaður, Þröstur hinn granni, Guðrún glæsilega og Rögnvaldur þvottahús stjóri. 

Látið ekki happ úr hendi sleppa!!! Kíkið í heimsókn á síðuna á FIMMTUDAGINN 18. SEPTEMBER!! 

Kv... Þórir rithöfundur


Sumarið búið... en samt ekki!

Um síðustu helgi fórum við í síðasta sinn á þessu ári upp að Pelican Lake. Það var ánægjuleg helgi... að vanda.  Þetta var mikil ferðahelgi, enda er fyrsti mánudagur í september alltaf frídagur.... kallaður „labor day". Sú helgi markar hið eiginlega lok sumars, því að í dag, þriðjudag, var svo fyrsti skóladagurinn hjá krökkunum. Þar með er Atli kominn í 10. bekk, Gísli í 3. bekk og Svana í 2. bekk. Það voru að sjálfsögðu teknar myndir af krökkunum í tilefni dagsins, og þær hljóta að skila sér hér á síðuna einhvern tímann síðar.

Á morgun, miðvikudag, byrjar svo enginn annar en ég sjálfur í skólanum. Hefst þar með mitt síðara ár í masters fræðunum, og veit ég ekki betur en að ég verði svo útskrifaður sem „Master of the Universe" í loka maí á næsta ári. (það ku vera svipuð gráða og He-Man var með á sínum tíma)

Dagatalið segir því að það sé komið haust. Hitastigið segir hins vegar að það sé langt í haustið. Hér var t.d. um 32° hiti um helgina og það verður a.m.k. fyir 20° langt fram í október.

Jæja.... gott að vera búinn að (inn)heimta Bjössa aftur frá Kína (ég er viss um að þar borðaði hann ekkert nema kína-kál, og Peking önd). Finnst annars að Óli Ragnar hefði átt að veita Bjössa fálkaorðuna fyrir framúrskarandi árangur á ólympíu-leikunum. Hann hefði örugglega fengið gullið í keppninni um besta frjáls-íþrótta lýsarann!!!. Krefst þess svo að fá að heyra af því hvort að þú hafir ekki sigraði í 800 metra hlaupi íþróttafréttamanna!

Best að fara í háttinn...

Kv... Þórir skóladrengur

 

Ps. Rocco....... þú kannt ekkert að ríma.... Töff-föff!...... framan-salan!...... þarft að fara að skerpa rímna skautana áður en ég kem með mitt árlega „rímnablogg" í Nóvember


Áfram Ísland!

Ekki misstum við af handboltaleikjunum þrátt fyrir að vera hér í Ameríkuhreppi þar sem enginn veit hvernig handbolti lítur einu sinni út. Ekki voru leikirnir sýndir beint í sjónvarpinu, en hins vegar tók NBC sjónvarpsstöðin upp flest alla íþróttaviðburði ólympíuleikanna, þannig að við gátum farið inn á internetið og séð leikina þar í beinni útsendingu. Eftir glæsilegan sigur á móti Prins Pólo landi í 8 liða úrslitum, og eftir að vera búin að monta okkur endalaust við nágrannana, ákváðum við að bjóða til veislu fyrir undanúrslita leikinn. Leikurinn byrjaði að okkar tíma kl. 7:15 þannig að við buðum nágrönnunum í morgunmat. Ég tengdi tölvuna við sjónvarpið þannig að þetta var alveg fullkomið. Það var ekki að spyrja að því að húsið fylltist. Bið vorum búin að hengja upp íslenska fánann við sjónvarpið og krakkarnir voru með blöðrur og veifur, þvílík stemming. Dágóður tími fór þó í að útskýra hitt og þetta fyrir amerísku nágrönnunum..... en allir voru farnir að skilja reglurnar að mestu í seinni hálfleik. Jón.. einn nágranni okkar ... er mikill áhugamaður um Ísland (Enda á hann afmæli 17. júní), var orðinn hrikalega spenntur í seinni hálfleik. Hann var farinn að kalla í gríð og erg öll þau íslensku orð sem hann kann, svo sem....BEINT!... RASSGAT!... SKÁL!... TIPPI!... OPAL!... TAKK!... það var frekar fyndið. Svo var einn nágranni okkar sem kunni spænsku og þar með vissum við alltaf hvað spænski þjálfarinn var að fyrirskipa sínum mönnum í leikhléum!

Það var gríðarleg stemming og að sjálfsögðu mikið fagnað í lok leiks þegar spanjólarnir höfðu verið lagðir að velli. Við sungum hástöfum... Öxar við ána...  loff-mala-koff... Gamla nóa... piparkökusönginn...  og fleiri hetjusöngva. Svo fór ég og hljóp hringinn í kring um götuna með íslenska fánann á herðunum!!!. Nágrannarnar voru ánægðir.... ég er samt ekki alveg viss um hvort þeir voru meira ánægðir með sigur Íslands í handboltaleiknum, eða það að hafa fengið dýrindis góðan morgunmat hjá Guðrúnu.

Úrslitaleikurinn var á mjög óheppilegum tíma fyrir okkur. Hann byrjaði kl. 2:45 aðfaranótt sunnudags. Enginn kom í heimsókn þá.... enda allir í Minnesotastrím farnir að sofa kl. 10 að kvöldi. Við Guðrún og Atli horfðum þó að sjálfsögðu á leikinn. Lítið var um dýrðir í þeim leik! Jon... nágranni okkar ætlaði reyndar að horfa á leikinn með okkur en hann sofnaði kl 2 eftir miðnætti. Við Atli erum búnir að kenna honum handbolta, og fórum með hann í vítakeppni í gær..... en hann gat nú ekkert í því og sagði bara BEINT... RASSGAT í hvert skipti sem hann klikkaði á skoti. Hins vegar kom hann til mín í morgun og óskaði mér til hamingju með silfur verðlaunin. Hann sagði að það fyrsta sem hann gerði þegar hann vaknaði hafi verið að kíkja á netið og tékka á úrslitunum í leiknum. Svo sagði hann frá því að honum hafi dreymt handbolta um nóttina. Hann sagði: „mig dreymdi að Ísland hafi verið 28 mörkum yfir í hálfleik... en svo klúðruðu þeir því niður og töpuðu í restina"...... ég er reyndar ekki alveg viss um að honum hafi verið að dreyma handbolta (frekar körfubolta). Það er fjári erfitt að vera 28 mörkum yfir í hálfleik... hvað þá að tapa því niður!

Við sættum okkur þó alveg við silfrið... enda er Ísland jú „stórasta land í heimi"

Kv... Þórir


Viðtal í DV

Vildi bara benda á að þegar ég var á Íslandi fór ég í viðtal hjá því ágæta dagblaði DV. Það viðtal mun birtast í blaðinu á morgun föstudag.

Gæti verið sniðugt að smella sér á eintak.........

kv... Þórir


Minneapolis - Ísland - Minneapolis

Þá erum við komin aftur heim frá Íslandi. Atli orðinn fermdur og þar með formlega kominn í fullorðinna manna tölu. Ferðin var góð... það voru klifin fjöll... litlu krakkarnir fóru á hestbak... mikið borðað af íslensku góðgæti... og síðast en ekki síst fann ég feita hamsturinn hans „Rocco the great lover from Selfoss", sem hafði sloppið úr búrinu sínu og var týndur. Við hittum fullt af fjölskyldu, vinum og kunningjum... ég fékk að fara á fullt af alvöru fótboltaleikjum þannig að ferðin var í alla staði mjög góð. Svo gerðist ég loksins svo frægur að heyra Bjössa lýsa frjálsum í sjónvarpinu og hann fór á þvílíkum kostum. Þetta var í fyrsta sinn frá því að við fluttum hingað út fyrir fimm árum sem við komum til Íslands að sumarlagi. Veðrið var samt merkilega gott... þ.e.a.s. meðan sólin var á lofti. Á kvöldin þegar sólin var farin fannst okkur vera hræðilega kalt, enda vön því að hitinn fari ekki niður fyrir 20° alla sólarhringinn hér hjá okkur.

Við komum til baka á laugardagskvöldið. Þegar við keyrðum upp að húsinu blasti við okkur hrikalega fyndin sjón. Þannig er mál með vexti að húsið við hliðina á okkur er til sölu, þar býr enginn og húsið er í eigu byggingarverktaka. Þegar við komum voru nágrannar okkar greinilega búnir að skemmta sér konunglega, því það var búið að færa söluskiltið yfir að húsinu okkar og risastórt „HOME FOR SALE" war komið á bílskúrinn okkar. Svo var búið að líma gult X á hurðina á húsinu og á þar stóð sórum stöfum „DO NOT ENTER". Það var búið að færa öll útblómin okkar yfir að hinu húsinu og líka bekk og stóla og borð sem við erum með hjá okkur á front porch. Svo birtust nágrannar okkar hver af öðrum skælbrosandi og buðu okkur velkomin heim.

Krakkarnir eru komin aftur á fullt í íþóttunum. Atli er farinn að æfa tvisvar á dag með „high-school" liðinu fótbolta. Svana og Gísli að komast aftur í fimleikaæfinga rútínuna og svo í gær fór Gísli svo á fyrstu æfinguna sína í Ameríska fótboltanum. Hann var býsna vígalegur þegar hann var kominn í búninginn með alxapúðana og hjálminn og honum fannst þetta ekkert smá gaman. Hann er lang minnstur og léttastur í liðinu sínu, en verður sennilega seigur sem „running back".

Gísli og Svana eru búin að fá að vita hver bekkjarkennarinn þeirra verður í vetur. Haldiði að kennarinn hans Gísla hafi ekki verið klappstýra hjá NBA liðinu okkar, Minnesota Timberwolves, í fyrra. Ég get ekki beðið eftir fyrsta foreldra fundinum og ég hef trú á því að ég eigi eftir að fara á alla foreldrafundi sem ég mögulega get farið á í vetur!!!!!!!! (Þorgrímur Þráinsson segir að það sé allt í lagi að horfa)


Íslenskt mál... 2. Hluti (af þremur)

Púðursykur og flórsykur.

Ég held að það hafi verið einhver mistök gerð þegar við fundum íslenskt heiti fyrir þessa annars ágætu hluti. Sko....... Púðursykur heitir á ensku „Brown sugar" og Flórsykur heitir á ensku „Powdered sugar". Það segir mér í fyrsta lagi að sennilega hefði flórsykur ekki átt að heita flórsykur..... heldur púðursykur. (bein þýðing á orðinu „powdered sugar" er jú „púðursykur". Þar að auki lítur púður út eins og flórsykur en alls ekki eins og púðursykur. Þannig að það er mín niðurstaða nr. 1 að púðursykur ætti alls ekki að heita púðursykur!!!

Ekki veit ég hvaðan orðið flórsykur kemur (gæti samt verið sambland af ensku orðunum fyrir hveiti og sykur.... flour + sugar).  Eitt veit ég þó..... og það er að orðið flórsykur er alveg út í hött. Ég veit að hundamatur er fyrir hunda.... kattamatur er fyrir ketti.... gúmmískór eru gerðir úr gúmmí.... tómatsósa er gerð úr tómötum.... hestakerra er kerra sem er dregin af hestum.......... og... flórsykur ætti því að vera sykur sem að kúabændur nota í gríð og erg til að sturta ofan í flórinn hjá sér!!!!! Niðurstaða nr. 2 er því sú að flórsykur ætti að heita púðursykur.

Heimspekileg kveðja... Þórir


Íslenskt mál - 1. hluti......... Langatöng

Eftir að hafa búið í USA í 5 ár er ég búinn að vera að stúdíera mikið íslensku í samanburði við ensku. Ég er búinn að komast að því að okkar ástkæra ilýra tungumál er stundum solítið skrítið, og skondið og stundum ekkert smá skrítið og skondið. Ég hef því ákveðið að fara hér af stað með smá þema sem að heitir „Íslenskt mál". Þetta verður í nokkrum hlutum og verður fjallað um eitt eða fleiri Íslensk orð í hvert skipti. Hér kemur fyrsti hluti:

Þumalfingur, vísifingur, langatöng, baugfingur, litlifingur........... hvað af þessum orðum passar ekki í þennan flokk?

Hvað var sá að hugsa sem fann upp á orðinu „langatöng".  Á ensku heitir þessi fingur „middlefinger" sem er nokkuð sniðugt finnst mér!...... en langatöng?????? Orðið er greinilega samansett af tveimur orðum, langa og töng. Ég get mjög vel samþykkt fyrri hlutann því að þetta er nú lengsti fingurinn (á flestum a.m.k.). En hvaðan kemur orðið töng? Er tilfellið að ég er bara með fjóra fingur á hvorri hendi........ og svo eina töng????. Og hvað á ég svo að gera við þessa löngu....töng. Ég á töng út í bílskúr... hún er ekki löng... hún er reyndar frekar lítil, en ég get gert ýmislegt með henni. Ég get hins vegar ekki gert neitt með löngutöng sem að ég get gert með minni stuttu töng sem er úti í bílskúr!!!! Ef að þessi fingur hefði bara verið skírður „langifingur" hefðu allir verið glaðir....... og það hefði orðið fullkomlega eðlilegt nafn á þessum  lengsta fingri okkar!

Því óska ég hér með eftir útskýringu vegna þessa íslenska heitis á þessum ágæta fingurs, sem heitir ekki einu sinni fingur..... heldur töng, og getur ekki einu sinni gert neitt sem að venjuleg töng getur!!!

 

Heimspekileg kveðja... Þórir


fótbolti og maraþon...

Atli er búinn að vera í Indianafylki frá því á fimmtudaginn að keppa í fótbolta. Liðið hans (Bangu Tsunami FC) er að keppa á móti sem heitir US club Soccer Regionals. Þetta er boðsmót þar sem einungis er boðið sterkustu liðunum í okkar landshluta, þ.e. Midwest fylkjunum. Þeir eru búnir að standa sig alveg glimrandi og í dag spiluðu þeir í undanúrslitum við eitt sterkasta liðið í mótinu sem heitir Chicago Magic. Sá leikur var ævintýri líkastur. Staðan var jöfn 2-2 eftir venjulegan leiktíma. Ekkert mark var skorað í framlengingu, þannig að vítaspyrnukeppni tók við. Eftir að Magic hafði klikkað á tveimur vítum gekk Atli fram til að taka síðasta vítið fyrir Bangu með möguleika á því að skjóta liðinu í úrslitaleikinn. Atli klikkaði að sjálfsögðu ekki, og sagði „hógvær" frá því í símanum, að hann hafði sett boltann óverjandi upp í vínkilinn..... og svo sagði hann að þeir hefðu fagnað eins og þeir væru orðnir heimsmeistarar.  Þannig að þeir eru komnir í úrslitaleikinn, sem fer fram kl. 10am að okkar tíma á morgun (þriðjudag). Ef þeir vinna þann leik þá tryggja þeir sér þátttökurétt í US club Soccer Nationals, þar sem keppt er við bestu liðin í landinu. Þannig að það er mikið í húfi. Þeir sem vilja fylgjast með framgöngu liðsins geta skoðað eftirfarandi síðu: http://www.gotsport.com/events/results.aspx?EventID=1839&Sex=Boys&Age=15

Guðrún er að fara að taka þátt í Chicago maraþoninu sem fer fram 12 október. Það fékk hún staðfest í dag, en hún var búin að sækja um að fá að hlaupa fyrir „Team McGraw". Team McGraw er spunnið upp úr  samtökum sem heitir „Tug McGraw Foundation" . Þessi samtök eru heila krabbameins samtök og Tug McGraw, sá sem samtökin eru tengd við, var þekktur hafnarboltaleikmaður, en hann lést úr heila krabbameini árið 2004. Sjálfsagt kannast ekki margir við hann á íslandi er hann var faðir hins þekkta söngvara Tim McGraw, sem ég er nú oft búinn að minnast á í mínu bloggi. Allir sem eru í „Team McGraw" hlaupa fyrir hönd einhvers sem hefur fengið heila krabbamein, þannig að Guðrún ætlar að hlaupa fyrir mína hönd. Hún þarf einnig að safna áheitum sem renna beint í rannsóknir á heilakrabbameini með það að markmiði að finna lækningu á þessum sjúkdómi. (Guðrún ég elska þig...) Annars getur vel verið að eitthvað meira vaki fyrir henni. A.m.k. er hún búin að vera í símanum við hljómborðsleikarann í hljómsveitinni hjá Tim McGraw, meira og minna í allan dag! Hann var staddur í hljómsveitarrútunni á leiðinni frá Colorado til Cleveland en þeir eru einmitt á tónleikaferðalagi núna. Til meiri ánægu og yndisþokka kemur hér eitt youtube stykki um „Team McGraw"

 

Vefslóðin á heimasíðu „Tug McGraw Foundation" er http://www.tugmcgraw.org/home.asp

Meira síðar.... Þórir


Kannt þú að fljúga flugvél???

Við keyptum okkur flugmiða til íslands í vikunni (við ætlum nefnilega ekki að koma með skipi). Það þarf víst að fara að gera Atla að manni og ferma hann. Hann átti að vera fermdur í fyrra, þannig að það er ekki seinna vænna. Skömmu eftir að við vorum búin að bóka flugið fékk ég hringingu frá Icelandair og ég var spurður hvort ég kynni nokkuð að fljúga flugvél! Ég sagði að svo væri ekki. „Allt í lagi" sagði gaurinn sem hringdi „við erum nefnilega búnir að segja upp svo mörgum flugmönnum, og erum að reyna að spara svo mikið að okkur datt í hug að athuga hvort að farþegarnir gætu bara ekki flogið sjálfir!" Snilldarhugmynd hjá þeim! Við komum til Fróns og verðum þar í 10 daga í ágúst.

Annasöm vika framundan. Við Guðrún eigum annars 8 ára brúðkaupsafmæli þann 1.júlí. Það ku vera tengt við „brons" hér í landi, en ég get með engu móti fundið út hvort að það er það sama á íslandi! Fínt að fá „brons" við erum þá að minnsta kosti komin í verðlauasæti!

Á föstudaginn er svo þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna... með tilheyrandi húllumhæi. Hátíðarhöldin byrja á fimmtudaginn.... því að þeir þurfa alltaf að super-siza all hér í þessu ágæta landi!

Guðrún fékk allt í einu þá flugu í höfuðið að fara að hlaupa maraþonhlaup í október. Það leist mér vel á..... nema þá fóru af stað í mér þankagangar um hvort ég ætti að hlaupa með.... henni til skemmtunar og yndisauka. Hún er heimsfrægur „milli-landa-hlaupari" þannig að þetta verður örugglega ekkert mál fyrir hana. Ég er hins vegar aðallega þekktur fyrir að vera latur fótboltamaður og mér finnst einstaklega leiðinlegt að hlaupa. Hins vegar veit ég að Bjössi hefur aldrei hlaupið maraþonhlaup þannig að þetta er kannski tækifæri fyrir mig..... að eiga betri tíma en hann í einhverju hlaupi! Ég fór a.m.k. út að hlaupa í dag og hljóp í kring um húsið, svo í kring um bílinn og síðast en ekki síst hljóp ég í kring um skottið á refnum. Á morgun ætla ég að hlaupa í kringum einiberjarunn! Ég læt vita hvernig þessum hugsana-þanka-maraþon-gangi framvindur.

Kveð að sinni.... Þórir


á 65 km/h á reiðhjóli!....

Lífið gengur sinn vanagang í Minne-sota-strím. Sólin skín og fuglarnir gala. Á laugardaginn er sumardagurinn fyrsti hjá okkur í Ameríkuveldi. Kominn tími til, enda óvenju milt vor þetta árið. Annars er búið að vera frábært veður á Íslenskan mælikvarða að undanförnu og 25°c daglega. Framundan er ekkert nema meiri blíða og nú er langtíma spáin með alla daga vel yfir 80°F sem þýðir að við förum að nálgast 30° íslenskum sem er nokkuð standard fyrir sumarhita hér. Við erum þó ekki búin að fá neinn +90°F ennþá...... en það hlýtur að fara að koma fljótlega. Heyskapur gengur með prýði í Bethesda setrinu, og sláttuvélin mallar mjúkt eftir að hún kom úr viðgerð. Það er skógur rétt hjá húsinu okkar þannig að á kvöldin heyrum við vel í alls konar dýrum, svo sem sléttu-úlfum, uglum, fullt af fuglum, kalkúnum, krybbum, álfum og huldufólki, þursum, drekum, dvergunum sjö, kiðlingunum sjö, kóngsdætrunum 12, geirfuglunum......... svo fátt eitt sé nefnt.   

Ég er búinn að vera nokkuð duglegur að æfa frá skólalokum. Sérstaklega er ég búinn að vera duglegur að synda, og nú syndi ég svo hratt og langt að enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Ég er ekki búinn að vera eins duglegur að hjóla, en ég bætti þó hraðametið mitt á hjólinu um daginn. Kom því upp í 65 km/h. Það var niður brekku og undan vindi............... og rosa gamann. Stefni að því að komast upp yfir 70 km/h næst, þá nefnilega gæti ég átt það á hættu að löggan myndi stöðva mig fyrir of hraðan akstur því að hámarks hraði þarna í umferðinni er 70........ það væri nú magnað!!  

Það sem ég er ekkert að vinna og hef lítið annað að gera en að horfa á EM í fótbolta þá ákvað ég að taka sumaráfanga í skólanum. Ég fer í skólann einu sinni í viku, á þriðjudagskvöldum. Það er ágætt! Það er létt og gott andrúmsloft og þetta kemur til með að létta af álaginu hjá mér á lokaönninni minni í feb. – maí á næsta ári, áður en ég útskrifast.  

 

Síðustu tvær vikur eru búnar að vera svolítið skrýtnar. Ein besta vinkona Guðrúnar, sem m.a. á bústað rétt hjá  okkur á Pelican Lake og kom okkur í kynni við þann stað, greindist með ristils krabbamein sem er búið að dreifa sér í lifur, eggjastokka og víðar í kviðarholið. Guðrún er búin að vera að hjálpa henni mikið og hún aðstoðaði hana m.a. með að komast að á Mayo clinic til að fara í 2. opinion. Hún var þar einmitt í dag og á að byrja í fyrstu lyfjagjöfinni á morgun.  Hún heitir Gloria, er gift og á tvö uppkomin börn og svo einn strák sem  heitir Bauer og er jafn gamall Gísla og þeir tveir eru bestu vinir. Bauer er búinn að vera hjá okkur nokkrum sinnum síðustu tvær vikur og Gloria er líka búin að koma nokkrum sinnum í heimsókn. Það er svolítið sérstakt fyrir mig að umgangast fólk sem hefur verið nýgreint með krabbamein. Það er allt öðruvísi en að tala við fólk sem er búið að vera með sjúkdóminn lengi. Til dæmis að umgangast Þórdísi Tinnu og tala við Ástu Lovísu, Lóu blómarós og fleiri var mjög sérstakt, því að þeim öllum fylgdi ólýsanleg ró og sátt við lífið og tilveruna..... og einhvernskonar styrkur sem geislaði af þeim. Ég held..... (ég veit) að ég er svoleiðis líka. En það er öðruvísi þegar ég tala við Gloriu. Hún hvefur gríðarlegan áhuga á því að vita hvernig ég komst í gegn um mína baráttu. Hún til dæmis skilur ekki hvernig ég get farið á fætur á hverjum degi, vitandi það að ég sé með krabbamein í hausnum sem gæti verið komið af stað aftur hvenær sem er.  Þetta eru allt eðlilegar spurningar og vangaveltur. Það er ekki hægt að sjá mikla ró né sátt hjá henni sjálfri heldur. En það á örugglega eftir að koma, hún er einstaklega sterk og klár manneskja sem er vön að gera allt fyrir alla. Ég veit að við eigum eftir að eiga fullt af áhugaverðum samtölum á næstu vikum.  Gloria er með bloggsíðu sem hún skrifar fréttir af sér og linkurinn á hana er http://www.caringbridge.org/visit/glorialudgate og ég er líka búinn að bæta henni við á listann yfir aðra bloggara hér til vinstri. Sendið henni endilega baráttukveðjur frá Íslandi!

 

Jæja…………. Við erum að fara “up north” til Pelican Lake um hádegi á morgun. Verðum þar á þeim sælustað alla helgina. Best að fara að finna sig til fyrir það (eða láta Guðrúnu gera það….. á meðan ég þykist vera að gera eitthvað annað)

 

Góða helgi…. Þórir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband