1.9.2010 | 05:02
Engar fréttir eru góðar fréttir!
En þá koma þá helstu fréttir. Í síðustu viku kláraði ég lyfjameðferð númer 5. Meðferðirnar hafa gengið mjög vel. Búinn að fara í aftur í MRI og niðurstöður voru fínar, allt stabílt. Það er búið að ákveða að lyfjameðferðirnar verða 12 og því er ég hér um bil hálfnaður! Eins og ég sagði frá áður þá þarf ég alltaf að fara í blóðprufu í hverri viku og í dag fór ég einmitt í mína 19 blóðprufu! Alltaf jafn mikið fjör hjá stelpunum á rannsóknarstofunni þegar ég kem í blóðprufu. Þær kikna í hnjánum og berjast um að fá að draga blóð úr svona stórmyndarlegum Mývetnskum ævintýramanni! (Það var nú reyndar einhver karlmaður sem tók blóð úr mér í dag.... mér fannst það nú hálf fúlt)
Sumarið er annars búið að vera rosa skemmtilegt. Fengjum tvær góðar fjölskyldu heimsóknir frá Íslandi, við Guðrún skelltum okkur til Miami og hittum alveg óvart fólk frá Íslandi sem við höfum aldrei hitt áður. Þau heita Rökkvi og Íris og eru alveg dæmalaust skemmtileg! Mikið er svo búið að bátast á Lake Wasabasa, öllum til mikillar ánægju og yndisauka. Sumarið er búið að vera það heitasta síðan við fluttum hingað. Hitinn er yfirleytt búinn að vera í kringum 35° og fór mest upp í 42°. Enn er fullt eftir af sumrinu, enda fyrsti haustdagur ekki fyrr en 23. Sept og í gegnum tíðina hef ég yfirleitt verið að slá garðinn hjá mér langt fram í Október.
Svo er ég farinn að þjálfa 14 ára stelpur í fótbolta. Það er ágætis tilbreyting. Stutt haust tímabil hjá þeim, klárast um miðjan okt. Annars er ég svo líka að fara að byrja í skóla eftir 10 daga. Ég held nefnilega að ég sé hrikalega góður að vera í skóla! Nú er ég að fara í doktorsnám.... í viðskiptafræði. Það er þriggja ára nám. Það er nú bara aðallega svo að ég nái Bjössa. Ég get ekki verið þekktur fyrir að vera með lægri gráðu heldur en hann! Ég veit ekkert hvað ég á að fara að gera þegar ég er búinn með það nám. Held ég þurfi nokkra ára hvíld til þess að finna út hvernig ég á að raða upp öllum þessum skammstöfunum sem ég hef fengið eftir að hafa klárað allar þessar námsgráður. Djöf... ég er farinn að nálgast Georg Bjarnfreðarson, hann var með fimm háskólagráður, en ég verð eftir 3 ár kominn með fjórar.... Samt veit ég ekki neitt!
Kv. Þórir
Athugasemdir
Sæll Frændi,
Gaman að lesa um þig eftir margra ára fjarveru:) Gleymi aldrei heimsóknum mínum í sveitina góðu og oftar enn einu sinni förum við í fótbolta.Gaman að heyra að allt gengur samkvæmt áætlun.Ég greindist einmitt 2004 með illkynja æxli og fór í lyfjameðferð þá og gekk vel.Nú 6.Árum seinna hafa frumurnar vaknað af þyrnirósarblundi og er þórsarinn byrjaður aftur í lyfjameðferð og fer síðan í geislameðferð í kjölfarið svona"just in case".Endilega verðum í sambandi og skila góðum kveðjum frá okkur.
Davíð Hreiðarsson (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 06:19
Loksins loksins, segi ég nú bara.... alveg kominn tími á að fá fréttir af þér;-)
Gott að heyra að allt gengur vel og ég efa ekki að þú ert flottasti þjálfarinn í USA, gangi þér vel í skólanum í haust.... og næstu þrjú árin;-) Hef einmitt verið að pæla hvort ég eigi að fara í háskólann bráðlega svo maður sé nú allavegana með EINA háskólagráðu. he he
Hafðu það sem best, kveðja frá drollunni;-)
Heiðrún Björnsdóttir (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 08:30
Gaman að heyra af þér aftur og gott að sjá að alvöru Mývetningar verða alltaf montnir, sama hvar þeir búa
Gott að meðferðin gengur vel, gott að þú takir að þér að kanna Könum fótbolta, um að gera að ná Bjössa, en ekki verða samt eins og Georg Bjarnfreðarson....
*** Gangi þér vel ***
Íris Dögg (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 16:58
Þetta var nú bara alveg ótrúlegur pistill. Svo óvenjulega hógvær að það er bara eiginlega ekkert hægt að hrauna yfir þig. Annar held ég að þetta sé mikill misskilningur hjá þér að dömurnar kikni í hnjáliðunum yfir að fá að taka blóð úr þér. Ef ég man rétt þá kiknaðir þú í hnjáliðunum í hvert skipti sem það var tekið blóð úr þér (og það var ekki af því að það væri ung stúlka að draga blóðið. Það gat þess vegna verið fauskurinn hann Ingimar) og stundum minnir mig að þú hafir nú bara hreinlega "sofnað"
Annars er mest lítið að frétta hér, óhæfum ráðherrum er skipt út fyrir aðra óhæfari. Þeim sveitarfélög sem skulda 3000 milljónir finnst þau í raun ekki vera skuldug því þau eiga öll hlutabréfin í skuldunum. Og Ég fór í barnsburðarfrí í dag (og eyddi fyrsta deginum í því í vinnuni - kauplaust).
Eitt að lokum. Mundu að þær 14 ára stelpur sem þú ert að þjálfa eru FJÓRTÁN ára. Það þíðir ekkert að koma með einhverja heilæxlisafsökun (um að þú í raun stjórnir ekki gjörðum þínum) ef losnar um "Villta Villa" í buxunum.
Bjössi Arngríms (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 21:04
Mikið var .... og gott að fá góðar fréttir af þér - ég er einmitt búin að hugsa mikið til þín undanfarið.
Dugnaður í þér að halda áfram í námi - sé alveg fyrir mér listann yfir útskriftarárgang "93 - Doktor Sigurbjörn Árni og Doktor Þórir Sigmundur Þrátt fyrir að ég sé að dunda mér áfram í námi þá stefni ég nú ekki hærra en í meistaratignina ... allavega ennþá.
Áframhaldandi baráttukveðjur fullar af krafti, jákvæðni, gleði og hamingju
Ella Dögg (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.