Engar fréttir eru góðar fréttir!

.... og af því að engar fréttir eru góðar fréttir, þá hef ég ekki séð neina ástæðu til þess að blogga í allt sumar. Aðrir kynnu reyndar bara að kalla þetta leti hjá mér..... og þessir „aðrir“ hafa líka algjörlega rétt fyrir sér.  

En þá koma þá helstu fréttir. Í síðustu viku kláraði ég lyfjameðferð númer 5. Meðferðirnar hafa gengið mjög vel. Búinn að fara í aftur í MRI og niðurstöður voru fínar, allt stabílt. Það er búið að ákveða að lyfjameðferðirnar verða 12 og því er ég hér um bil hálfnaður! Eins og ég sagði frá áður þá þarf ég alltaf að fara í blóðprufu í hverri viku og í dag fór ég einmitt í mína 19 blóðprufu! Alltaf jafn mikið fjör hjá stelpunum á rannsóknarstofunni þegar ég kem í blóðprufu. Þær kikna í hnjánum og berjast um að fá að draga blóð úr svona stórmyndarlegum Mývetnskum ævintýramanni! (Það var nú reyndar einhver karlmaður sem tók blóð úr mér í dag.... mér fannst það nú hálf fúlt)

 Sumarið er annars búið að vera rosa skemmtilegt. Fengjum tvær góðar fjölskyldu heimsóknir frá Íslandi, við Guðrún skelltum okkur til Miami og hittum „alveg óvart“ fólk frá Íslandi sem við höfum aldrei hitt áður. Þau heita „Rökkvi og Íris“ og eru alveg dæmalaust skemmtileg! Mikið er svo búið að bátast á Lake Wasabasa, öllum til mikillar ánægju og yndisauka. Sumarið er búið að vera það heitasta síðan við fluttum hingað. Hitinn er yfirleytt búinn að vera í kringum 35° og fór mest upp í 42°. Enn er fullt eftir af sumrinu, enda fyrsti haustdagur ekki fyrr en 23. Sept og í gegnum tíðina hef ég yfirleitt verið að slá garðinn hjá mér langt fram í Október.  

 

Svo er ég farinn að þjálfa 14 ára stelpur í fótbolta. Það er ágætis tilbreyting. Stutt haust tímabil hjá þeim, klárast um miðjan okt. Annars er ég svo líka að fara að byrja í skóla eftir 10 daga. Ég held nefnilega að ég sé hrikalega góður að vera í skóla! Nú er ég að fara í doktorsnám.... í viðskiptafræði. Það er þriggja ára nám. Það er nú bara aðallega svo að ég nái Bjössa. Ég get ekki verið þekktur fyrir að vera með lægri gráðu heldur en hann! Ég veit ekkert hvað ég á að fara að gera þegar ég er búinn með það nám. Held ég þurfi nokkra ára hvíld til þess að finna út hvernig ég á að raða upp öllum þessum skammstöfunum sem ég hef fengið eftir að hafa klárað allar þessar námsgráður. Djöf... ég er farinn að nálgast Georg Bjarnfreðarson, hann var með fimm háskólagráður, en ég verð eftir 3 ár kominn með fjórar.... Samt veit ég ekki neitt!

  Kv. Þórir

Á leið í 3. Umferð!

Jæja... allt gengur samkvæmt áætlun. Önnur umferð af lyfjasmeðferðinni  kláraðist án mikilla vandræða. Ég fann hins vegar töluvert meira fyrir henni heldur en fyrstu umferðinni. En það var nú samt allt í lagi... ekkert sem ég þarf að kvarta yfir. Ég fór svo í MRI núna á miðvikudaginn. Niðurstöður vour fínar... virðist vera að lyfjameðferðin hafi tilætluð áhrif, og læknirinn sagði að partur af æxlinu væri varinn að minnka, sem er að sjálfsögðu frábært.

Líður annars mjög vel sem endranær. Fór meira að segja og keppti í fótbolta um daginn með old-boys liðinu mínu. Skoraði að sjálfsögðu sigurmarkið og var hetja dagsins! Er býsna duglegur að halda mér í formi og hleyp, syndi, hjóla og lyfti eins og vanalega. Reyndi að láta þessa lyfjameðferð hafa sem minnst áhrif á mitt líf.... held að það gangi bara alveg hreint ágætlega.

 

Ég byrja svo á 3. umferð í lyfjameðferðinni á mánudaginn. Hef ekki trú á því að það verði neitt öðurvísi heldur en síðast. Þannig að í heild sinni þá gengur þetta allt saman bara allt rosalega vel!

Áfram Argentína...

 

Þórir

1. umferð í lyfjameðferð... ekkert mál!

Þá er fyrsta umferð í lyfjameðferðinni búin. Þetta gekk bara alveg hreint glimrandi... var bara ekkert mál...  Hér kemur dagatalið fyrir þessa fyrstu 5 daga. 

 

Dagur 1: tók æluvarnarlyfið kl 23:30 og svo Temodarið um miðnætti. Átti svo að fara beint að sofa en það gekk ekki mjög vel að sofna þar sem ég var svo spenntur (ekki stressaður) yfir því hvort még mundi finna fyrir einhverju þegar lyfin myndu byrja að virka. Var að spá í hvort að ég yrði allur grænn og myndi breytast í „The incredible Hulk“!... en ekkert gerðist þannig að ég fór bara að sofa. Vaknaði hress og kátur daginn eftir og tók aftur æluvarnarlyf kl. 8. Fann enga breytingu á sjálfum mér það sem eftir var dags.  

 

Dagur 2: tók æluvarnarlyfið kl 23:30 og svo Temodarið um miðnætti... steinsofnaði... svaf eins og röndótt rolla (Guðrún sagði meira að segja að ég hafði jórtrað)... vaknaði og tók æluvarnarlyfið kl. 8. Fann enga breytingu á sjálfum mér það sem eftir var dags. Var á þessu stigi farinn að spá í hvort að ég hefði fengið rétt lyf! Virkni lyfsins voru nefnilega eins og ég væri að taka gúmmí-bangsa-vítamín fyrir krakka!  

 

Dagur 3: tók æluvarnarlyfið kl 23:30 og svo Temodarið um miðnætti... steinsofnaði... svaf eins og sveittur selur... vaknaði og ákvað að taka „EKKI“ æluvarnarlyfið kl. 8 !!! Klukkan 11 komst ég að því að það voru mistök, og í fyrsta skipti fann ég Temodarið var greinilega að gera eitthvað því að þá var ég bæði kominn með hausverk og ógleði! Tók því æluvarnarlyfið í snartri, og var orðinn góður um hádegi. Fór út að hlaupa um kvöldið og hljóp 5 km. Það var hressandi og gott. Át eins og hungraður hestur um kvöldið  

 

Dagur 4: Eins og dagur 2... nama að ég jórtraði ekki um nóttina!  

 

Dagur 5: Lokaskammturinn tekinn um kvödið. Vaknaði hress og kátur... kyssti Guðrúnu og gaf krökkunum sleikjó í tilefni dagsins!  

 

Niðurstaða: Þetta var ekkert mál!... nú fæ ég pásu í 3 vikur... þyrja svo á 2. Umferð af lyfjameðferðinn í lok mánaðarins, þá verður lyfjaskammturinn aukinn um 33% og ég ætla rétt að vona að það verði eitthvað meira fjör þá! :)  

 

Brosandi kveðjur... Þórir

Á morgun byrjar fjörið....

Það var nú orðið svo langt síðan ég kom síðast inn á þessa bloggsíðu mína að ég þurfti nokkrar tilraunir til þess að skrá inn rétt lykilorð til þess að geta sett nýtt blogg inn á síðuna!

Jæja, ég byrja sem sagt í lyfjameðferð á morgun (mánudag). Það gengur þannig fyrir sig að ég tek þar til gerðar töflur sem heita Temodar. Þetta eru töflur sem  ég tek á kvöldin, áður en ég fer að sofa. Ég tek lyfin í fimm daga, og svo er hvílt í 23 daga. Sem sagt 28 daga hringur... svona svipað eins og tíðahringurinn... þannig að þetta hlýtur að verða svipað eins og að vera á túr! Svo er áætlað að taka 6-12 umferðir af þessarri lyfjameðferð, þannig að þetta gæti orðið heils árs meðferð. Einar algengustu aukaverkarninar af þessu lyfi eru ógleði  með tilheyrandi uppköstum, og til þess að vinna á móti því þá tek ég þar til gerðar „ælu-varnar-pillur“ hálftíma áður en ég tek Temodar lyfið.

Að öðru leyti fylgir þessu nú ekkert mjög alvarlegar aukaverkanir sem tekur því að kvarta yfir. Ég er til dæmis ekki að fara að missa hárið... né vitið... né mývetnska montið!

Annars líður mér stórvel, er hress, kátur og sprækur, og mín almenn heilsa er í raun alveg eins og hún var þegar ég skrifaði blogg síðast... fyrir 15 mánuðum. Þó að heilaæxlið hafi stækkað lítilega þá hefur það ekki haft nein áhrif á mitt daglega líf, þannig að það fygja þessu engir verkir eða neitt slíkt. Ég get ekki sagt að það hafi komið á óvart þegar við fórum til krabbameinslæknisins míns eftir síðasta MRI og hann sagði okkur að æxlið væri farið að vaxa á ný. Hann var búinn að segja okkur fyrir 4 árum þegar við hittum hann fyrst að það væri alveg öruggt að æxlið myndi einhvern tímann fara að stækka aftur.  Að sjálfsögðu vonaðist maður til þess að það yrði sem lengstur tími sem æxlið væri til friðs... en svona er þetta nú bara!

Stækkunin á æxlinu er ekki mjög mikil! Það er enn talið vera „low grade“, en læknirinn var á því að það væri best að ráðast á kvikindið núna, og reyna að halda því í skefjum, meðan vöxturinn er svona hægur. Þar að auki hef ég enga stjórn því hvort æxlið vex eða ekki! Og eins og ég haf margoft sagt áður það er það ekki mitt að hafa áhyggjur af æxlinu, ég læt lækninn minn um það, og svo segi ég bara já og amen við því sem hann ráðleggur og geri svo bara eins og hann segir.  

 

Ég verð nú reyndar að viðurkenna það að það er svolítið skrýtið að vera að fara í krabbameins lyfjameðferð án þess að vera með nein líkamleg einkenni. Þetta er allt svolítið óraunverulegt... þetta er svona svipað eins og maður myndi setja á sig strumpa plástur... án þess að vera með neitt sár!!!!  

 

Á morgun byrjar svo fjörið!... ég fer í fyrramálið í blóðprufu, sem ég þarf svo að gera vikulega á meðan meðferðinni stendur... sem sagt næstu 26-52 vikurnar. Það er þrennt sem þarf að fylgjast með í blóðinu. Rauðu blóðkornunum, hvítu blóðkorninum, og svo hvort að það sé ekki örugglega nóg af Mývetnsku monti í blóðinu. Þegar ég er búinn í blóðprufunni á morgun, sæki ég lyfin og fer með þau heim. Svo tek ég bara ælulyfin annað kvöld og svo Temodar töflurnar rétt áður en ég fer að sofa... og svo er bara að vona að ég nái að sofa alla nóttina, án þess að ég þurfi að fara niður á hnén til að „tilbiðja postúlínsguðinn“ um miðja nótt : )  

 

Ég reikna annars ekki með því að vera mjög duglegur að blogga... reyni frekar að verða duglegri að setja smotterí inn á Facebook.  

 

Bestu kveðjur!.... Þórir

Atli fær bílpróf!

Í dag var mikill og merkilegur dagur, því að í dag fór Atli í bílpróf..... og stóðst það með prýði.  Hann varð 16 fyrir rúmri viku, sem er jú bílprófsaldurinn hér á bæ. Hér er þessi fína mynd sem var tekin af honum í morgun þegar hann kom heim eftir ökuprófið. Hann ætlar að fara á rúntinn í kvöld.... og verður ekkert smá flottur á sjö-manna-bílnum. (Þess má geta að Atli er fyrsti meðlimur fjölskyldunnar til að standast bílprófið í fyrstu tilraun... því við Guðrún þurftum bæði tvær tilraunir þegar við fluttum hingað um árið)

IMG 6260

Gísli átti líka afmæli fyrir rúmlega tveimur vikum og er því orðinn 9 ára. Hér er mynd af honum ásamt hluta af vinum hans úr afmælisveislunni... og fínu fimleika-afmælis-kökunni.

IMG 6193

kv... Þórir


Rauða spjaldið!

Síðan við fluttum hingað í Ameríkuhrepp hef ég eldrei haft eins gaman af því að spila fótbolta eins og nú í vetur.  Ég var „keyptur" í nýtt lið og við keppum einu sinni í viku í hinni landsþekktu AZTECA deild. Í þeirri deildinni eru 16 lið og þau eru öll skipuð eingöngu leikmönnum frá Mexíkó..... nema liðið okkar! Í liðinu okkar (sem heitir Dynamo) eru fulltrúar sjö þjóða: USA, Ísland, Mexíkó, Sómalía, Eþíópía, England og Kólumbia. Við erum búnir að fara á kostum og berjumst í toppbaráttunni. Fyrir leikinn sem við spiluðum um síðustu helgi vorum við á toppnum.... við áttum að spila við Boca Juniors sem voru í 4. sæti. Ekki leið á löngu fyrr en skapheitu mexíkanarnir voru farnir að sparka okkur niður við hvert tækifæri og við vorum farnir að bölva þeim í sand og ösku á 7 tungumálum. Ekki leið þó á löngu áður en unglambið frá Íslandi var búinn að skora.... og það með þvílíkum þrumu SKALLA að annað eins hefur varla sést. Ekki kom það þó mér neitt sérstaklega á óvart því að mér var hér á árum áður alltaf líkt við „Njál Quinn" svo öflugur var ég í skallaboltunum. . Í hálfleik var 1-1 og dómarinn (sem var frá Mexíkó) búinn að gefa 10 gul spjöld. Þar á meðal var ég búinn að fá gult.....fyrir að vera 10 árum of seinn í tæklingu. Í hálfleik minnti ég mína menn á að halda sig á mottunni og fara ekki að haga sér eins og vitleysingar... þrátt fyrir að það væri greinilegt að dómarinn væri frá Grenivík!!!. Ekki voru búnar nema um 10 mín. af seinni hálfleik þegar dómarinn var búinn að sýna mér allt spjaldasafnið sitt..... þ.e. annað gult og þar með rautt. RAUÐA-SPJALDIÐ!!!.... og það fyrsta á ferlinum..... sem er ótrúlegt því að hér á fyrri árum var ég alltaf talinn vera álíka grófur og Roy Keane. Málið var bara að litli mexíkaninn með som som brero gaf mér svona heiftarlegt olnbogaskot  upp undir bringuspalirnar.... og ég bara varð að launa það með olnbogaskoti til baka!!! Ég lærði nefnilega einhvern tímann regluna „auga fyrir auga - tönn fyrir tönn". Eftir að Íslenski skriðdrekinn var farinn af velli, hrundi spilaborgin hjá alþjóðlega liðinu og við töpuðum 5-2. Alls voru 2 rauð spjöld gefin í leiknum og 14 gul! Ekki nóg með það heldur er þetta svo alvarleg deild að ég er í LEIKBANNI í næsta leik, og þarf að borga 20 dollara í sekt fyrir að hafa verið rekinn útaf!!!

Að öðru leiti er allt gott að frétta. Ég byrja aftur í skólanum í næstu viku eftir sex vikna jólafrí. Hefst þar með síðasta önnin áður en ég útskifast í maí. Veturinn er búinn að vera fínn. Fullt af snjó og hitinn búinn að fara einu sinni yfir frostmark frá því í byrjun desember. Hitastigið er yfirleitt svona milli -10 og -35°C. En við erum nú orðin alvön þessu og hljótum að lifa þetta af eins og fyrri ár.

Björgunarsveitin Blika.... sem sér um að losa bíla úr sköflum fyrir misheppnaða ökumenn í Ameríkuhreppi... hefur einungis fengið eitt útkall á þessum vetri. Sú saga verður sögð í næsta þætti. Missið ekki af hörkuspennandi sögu um ungan dreng sem klæðir sig í spari-gúmmískóna og fær ótrúlega ofurkrafta til að ýta bílum og losa þá úr snjó..... „MÝFLUGU-MAÐURINN"......komming soon to a blog site near you...

kv... Þórir


Gamlar (en góðar) fréttir!

Maraþonið: Guðrún stóð sig eins og hetja í Chicago maraþoninu.... og komst í mark... sem var jú aðalmarkmiðið. „hún kom... sá... og kláraði" þrátt fyrir þvílíka magakrampa sem byrjuðu eftir 15 kílómetra. Hún hægði bara á sér og harkaði sér í mark. Það voru um 40,000 manns sem tóku þátt og um um 500,000 manns sem hvöttu hlauparana áfram. Það var hrikalega gaman að fylgjast með hlaupinu. Ég var búinn að plana að reyna að sjá Guðrúnu á fimm mismundandi stöðum, en slíkt var mannhafið að ég sá hana bara tvisvar, eftir c.a. 5 km. og svo aftur eftir 40km. Þrisvar sinnum missti ég af henni í mannhafinu. Aðstæður til maraþons voru frekar slæmar, þ.e. um mitt hlaupið var kominn 29 stiga hiti sem telst vera frekar heitt fyrir svona hlaup. Þetta var í fyrsta skipti sem ég var vitni að maraþon hlaupi og það merkilegasta sem ég lærði frá því var eftirfarandi: „Maraþon hlaup er ekki keppni" (nema fyrir ca 1% af þeim sem taka þátt). Maraþon snýt bara um að komast í mark. Það fannst mér mjög merkilegt því að ég stóð alltaf í þeirri trú um að maraþon væri keppni. Og..... ástæðan fyrir því að ég hef ekki viljað hlaupa maraþon er sú að ég hélt að ég væri ekki nógu góður til þess.... ég myndi ekki ná nógu góðum tíma..... Þvílík bull og vitleysa... sigurinn snýst í því að hlaupa yfir endamarkið. Það er alveg ljóst að þetta þarf ég að gera fyrr en síðar.

Prófavika: Við keyrðum heim frá Chicago samdægurs eftir maraþonið. Fórum fyrst á kvöldverðar fögnuð hjá Team McGraw, sem var mjög gaman. Við komum heim um miðja nótt aðfaranótt mánudags 13 okt. Þar tók svo við prófavika hjá mér í skólanum (miðannar-prófin). Búin að fá einkunnir út úr því öllu núna.... og sigli lygnan sjó! Allt samkvæmt áætlun.

MRI nr. 9: svo fór ég um daginn í tékk. Læknirinn sagði að það væri ekkert að frétta úr heilanum á mér. „Fyrir þig - engar fréttir... eru góðar fréttir" sagði hann. Gott mál!... næst tékk eftir 6 mánuði.

Guðrún í Houston: Guðrún er búin að vera undanfarna viku í sinni árlegu haust-Houston-International-Quiltmarket-ferð. Hún kemur aftur heim á morgun og þar með endar „spaghetti og frosen pizza" dietið sem við restin af fjölskyldunni erum búin að vera á undanfarna viku.

Nýtt.... Mardonna: er orðinn landsliðsþjálfari Argentínu. Frábærar fréttir fyrir okkur öll sem erum æstir aðdáendur Argentínu í fótbolta. Þar með er það bókað að Argentína verður heimsmeistari 2010 í Suður Afríku. Því að þegar þjálfarinn er með "hendi Guðs" þá hlýtur liðið að verða ósigrandi....

Með bros á vör... Þórir


35 ára í dag!!

Frábærasti eiginmaður og besti pabbi í heimi.

Til hamingju með afmælið í dag.

Guðrún, Atli, Gísli og Svana

3-26-2007-12

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í tilefni dagsins var drengurinn vakinn eldsnemma í morgun með köku og tilheyrandi, svo fór hann í skólann eins og litlu börnin. Í hádeginu hefur hann svo óskað eftir að fara út að borða á uppáhaldsstaðinn sinn þannig að við hittum hann þar (ég, Sævar bróðir og Halldóra en þau komu í gær). Hátíðarhöldunum verður svo haldið áfram í dag með humarveislu í kvöld (smygl frá Íslandi frá því í sumar!), Tinu Turner tónleikum á morgun og svo brottför til Chicago á föstudagsmorgun. Hver veit nema að það verði svo afmælispartí í næstu viku.......þýðir lítið annað en margra daga hátíðarhöld á svona merkisafmælum!!


12. okt. nálgast...

  ..... Læknarnir sögðu mér á sínum tíma, þegar ég greindist með heilakrabbamein, að ég væri búinn að vera með heilaæxli í langan tíma, jafnvel frá unga aldri, og jafnvel frá fæðingu. Ef læknarnir mínir myndu sjá fermingarmyndina af mér þá er ég viss um að það væri staðfesting fyrir þá að ég hefði örugglega verið kominn með heilaæxli þegar ég valdi mér þessi gleraugu..... það þarf eitthvað heila-brenglaðan mann til að velja sér svona gleraugu...... En svona er nú bara lífið!

Eins og ég sagði frá fyrr í sumar þá er Guðrún að fara að taka þátt í Chicago maraþoninu. Hún er að fara að hlaupa maraþon í fyrsta sinn og er búinn að æfa stíft fyrir það. Hlaupið er 12 okt. þannig að það eru bara rétt rúmlega tvær vikur til stefnu. Eins og ég var líka búinn að segja áður þá er Guðrún að hlaupa til styrktar góðs málefnis.....míns málefnis.... til styrktar rannsóknum á heilakrabbameini. Hún er að hlaupa fyrir „Tug McGraw foundation"  og er ein af 27 útvöldum sem að valin voru í lið „Team McGraw". Allir hlaupararnir í þessum hópi eru að hlaupa fyrir einvherja ákveðna persónu og að sjálfsögðu er frúin að hlaupa fyrir mig!!!

Eins og áður sagði er markmið samtakanna  að safna peningum sem fara beint í heilakrabbameins rannsóknir, og því yrðum við mjög þakklát ef einhverjir frá landinu Ísa myndi sína þessu framtaki stuðning og láta gott af sér leiða. Guðrún setti sér það markmið að safna 2.500 dollurum og nú þegar er hún nær hálfnuð að takmarkinu með góðri hjálp nágrannar okkar og vina,  gamalla skólafélaga minna og kennara.

Skoðið a.m.k. vefslóðina inn á „Team McGraw" siðuna hennar Guðrúnar . http://www.active.com/donate/teammcgrawchicago08/tugGGislad.  Þar er líka hægt að fræðast meira um þessi samtök og allt það frábæra starf sem þau eru að vinna...... Allur stuðningur er vel þeginn

Kv... Þórir

 

Update frá hlauparanum: Undirbúningurinn gengur vel, hefur gengið nokkuð hnökralaust og nokkurn vegin án meiðsla. Ég hljóp mitt síðasta langa hlaup um helgina (32 kílómetra) og er mjög fegin að vera búin með það. Erfiðasti parturinn er án efa andlegi hlutinn, það er meira en að segja það að vera að hlaupa aleinn úti í nokkra klukkutíma. Það sem knýr mig áfram þó á æfingunum er hugsunin um hvers vegna ég er að leggja þetta allt á mig. Kanski getur mitt framlag orðið til þess að einhverjum vísindamanninum tekst að finna lækningu við þessum sjúkdómi  og þar með losað okkur við þessa hlekki sem fylgja okkur daglega. Mér finnst gott að geta notað líkamlega orku á þennan hátt og það er alveg á hreinu að ég held ég hefði aldrei haft andlegan styrk í að leggja svona nokkuð á mig án þess að hafa svona sterkt og raunverulegt „Motivation".  Ég hef í raun komið sjálfri mér nokkuð á óvart hvað það varðar. Hugurinn hvarflar víða á þessum hlaupum mínum.........ef þið bara vissuð hvað mér dettur í hug stundum!!!!

Guðrún

PS. Vildi bæta við link á frábært video á YouTube sem vekur athygli á sjúkdómnum. Kíkið á þetta.

http://www.youtube.com/watch?v=5FSCfBw_MEc


Hænsna Þóris saga

Einu sinni fyrir langa löngu var ungur prins sem hét Þórir. Þórir átti heima í litlu konungsdæmi fyrir norðan. Ungur kvæntist hann Heiðrúnu prinsessu og réðu þau um stund yfir konugsríkinu eins og myndir hér að neðan sýnir.

Allt stefndi í endalausa hamingju... Ekki var þó Adam lengi í Paradís því að drottningin yfirgaf kóng sinn þar sem hann týmdi ekki að kaupa handa henni nýja kórónu.

Skömmu síðar kynntist Þórir skrítnum kauða sem að talaði hratt og mikið.... nuddaði hratt saman lófunum....  barði með priki í jörðina.... og þóttist vera góður í að hlaupa, glímu, blaki, og skák. Bjössi var lestrarhestur eins og myndin hér fyrir neðan sýnir.

Bjössi kenndi Þóri öll sín bestu trix. Um það leiti sem Duran Duran var orðin besta hljómsveit í heimi,  var Þórir orðinn miklu betri en  Bjössi í öllu (þ.e. hlaupum, glímu, blaki, og skák) Þá fór Bjössi að gráta og fyrir eintóma góðmennsku lofaði Þórir því að hann mundi aldrei keppa í hlaupum svo að Bjössi gæti verið betri en hann í einhverju. Þórir kenndi síðan Bjössa galdurinn á bak við hvernig hann lærði svona fljótt að vera góður í „öllu" og með þá vitneskju að leiðarljósi varð Bjössi margfaldur Íslandsmeistari í hinum ýmsustu hlaupum.

Þórir dafnaði vel og um fermingu varð hann hinn myndarlegasti unglingur eins og myndir hér að neðan sýnir.

Hann var með svo stór gleraugu að enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Enda sá hann yfir fjöll og fyrnindi. Ekki naut Þórir mikillar kvenhylli á þessum árum.

Skömmu síðar fór Þórir til náms í galdraskólann á Laugum. Í galdraskólanum voru fjórar heimavistir. Þær hétu Gryffindor, Slytherin, Hufflepuff, & Ravenclaw. Í galdraskólanum var sérvalinn hópur ungs fólks sem myndi fyrr eða síðar taka öll völd á Íslandi. Þar lærði til dæmis Súperman að fljúga, Svansý að taka viðtöl, Mugison að spila á gítar, Bjössi að lýsa frjálsíþróttamótum, Sævar P að rífa kjaft við dómarann... svo fátt eitt sé nefnt. Í galdraskólanum kynntist Þórir skrítnum snáða sem hét Þröstur. Þröstur  vildi aldrei borða grautinn sinn. Þess vegna var hann alltaf lítill og mjór, eins og myndin hér fyrir neðan sýnir.

Seinna fór Þröstur til Kanada í annan galdraskóla. Þar datt hann óvart ofan í grautarpottinn einn daginn. Þar komst hann að því að grauturinn var ekki vondur.... heldur rosa góður. Uppfrá því borðaði hann alltaf mikinn graut og vað loksins stór og sterkur.

Næst fór Þórir í íþrótta-galdaskólann á Laugarvatni. Þar kynntist hann ungri prinsessu sem var dóttir hins fræga Gísla galdrasmiðs á Selfossi. Guðrún var hinn vænsti kvenkostur eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

 Þórir lokkaði Guðrúnu til sín með galdraþulunni „boltinn boppaði í dokkina" Þá galdraþulu skilja engir nema reyndir galdramenn (a.m.k. skilja sunnlendingar ekki hvað það þýðir). Svo fór að Þórir og Guðrún eignuðust börn og buru fluttust í galdrahús á Selfossi.

Á Selfossi kynntist Þórir enn einum furðufuglinum. Hann var kallaður Röggi galdramaður. Það var hins vegar bara yfirskyn. Hann vann í stóra þvottahúsinu í Reykjavík, og þóttist vera aðalkallinn þar. Það var líka yfirskin þvi að sá sem átti þvottahúsið var Kjartan galdrakall... helsti óvinur Strumpana. Röggi var í raun ekki galdrakall því að hann var leynirannsóknarmaður sem vann hörðum höndum við að leysa Geirfinnsmálið. Hann þóttist því vinna í stóra þvottahúsinu í Reykjavík til að það færi sem minnst fyrir honum. Röggi var alltaf mjög dularfullur á svipinn eins og myndir hér að neðan sýnir.

Röggi hafði fengið fyrirspurnir um að lausn Geirfinnsmálsins mætti rekja til Bandaríkjanna. Hann réði því Þórir til að flytjast með galdrafjölskylduna til Ameríkuhrepps til að freista þess að leysa málið. Þórir samþykkti strax enda var tilboðið freistandi og Þórir fékk að launum fullt af hlutabréfum í deCode, FL Group, XL Leisure Group, og Eimskipi. Þórir sagði öllum að hann væri í skóla, sem var að sjálfsögðu yfirskyn, til þess að hægt væri að reyna að leysa Geirfinnsmálið.

Það fyrsta sem Þórir þurfti að gera þegar hann flutti til Ameríkuhrepps var að fara í galdra-augnaðgerð. Það var til þess að hann myndi ekki vekja of mikla athygli með stóru gleraugun. Eftir það gat Þórir séð í gegn um holt og hæðir.

Skömmu síðar náði Þórir að koma auga á grunsamlegan hlut sem hugsanlega virtist vera tendgur Geirfinnsmálinu. Það var 1972 Corvetta. Röggi vildi fá hana senda heim til Íslands tafarlaust. Þórir hugsaði svo mikið um hvernig væri hægt að koma bílnum heim, að allt fór í flækju í heilanum á honum. Svo mikil var flækjan að ekki var hægt að leysa úr henni. Því þurfti Þórir að fara og láta galdralækni í Minnesotastrím skera flækjuna úr heilanum á honum.  Þórir hugðist nú lögsækja Rögga en hann var þá hvergi að finna enda hafði hann þá breytt nafni sínu í „Rocco the greatest lover from Selfoss". Röggi féllst loks á að borga Þóri skaðabætur og borgaði með hlutabréfum í Lehmann Brothers og AIG.

Fyrir skömmu fór Þórir til Íslands og vildi hitta Þröst og Rögga, en hann fékk ekki leyfi til að hitta þá þar sem mittismál Þóris er ekki nægilega mikið.

Aldrei átti Þórir neinar hænur.....

Lýkur þar með Hænsna Þóris sögu

Kv...Þórir


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband