Áfram Ísland!

Ekki misstum við af handboltaleikjunum þrátt fyrir að vera hér í Ameríkuhreppi þar sem enginn veit hvernig handbolti lítur einu sinni út. Ekki voru leikirnir sýndir beint í sjónvarpinu, en hins vegar tók NBC sjónvarpsstöðin upp flest alla íþróttaviðburði ólympíuleikanna, þannig að við gátum farið inn á internetið og séð leikina þar í beinni útsendingu. Eftir glæsilegan sigur á móti Prins Pólo landi í 8 liða úrslitum, og eftir að vera búin að monta okkur endalaust við nágrannana, ákváðum við að bjóða til veislu fyrir undanúrslita leikinn. Leikurinn byrjaði að okkar tíma kl. 7:15 þannig að við buðum nágrönnunum í morgunmat. Ég tengdi tölvuna við sjónvarpið þannig að þetta var alveg fullkomið. Það var ekki að spyrja að því að húsið fylltist. Bið vorum búin að hengja upp íslenska fánann við sjónvarpið og krakkarnir voru með blöðrur og veifur, þvílík stemming. Dágóður tími fór þó í að útskýra hitt og þetta fyrir amerísku nágrönnunum..... en allir voru farnir að skilja reglurnar að mestu í seinni hálfleik. Jón.. einn nágranni okkar ... er mikill áhugamaður um Ísland (Enda á hann afmæli 17. júní), var orðinn hrikalega spenntur í seinni hálfleik. Hann var farinn að kalla í gríð og erg öll þau íslensku orð sem hann kann, svo sem....BEINT!... RASSGAT!... SKÁL!... TIPPI!... OPAL!... TAKK!... það var frekar fyndið. Svo var einn nágranni okkar sem kunni spænsku og þar með vissum við alltaf hvað spænski þjálfarinn var að fyrirskipa sínum mönnum í leikhléum!

Það var gríðarleg stemming og að sjálfsögðu mikið fagnað í lok leiks þegar spanjólarnir höfðu verið lagðir að velli. Við sungum hástöfum... Öxar við ána...  loff-mala-koff... Gamla nóa... piparkökusönginn...  og fleiri hetjusöngva. Svo fór ég og hljóp hringinn í kring um götuna með íslenska fánann á herðunum!!!. Nágrannarnar voru ánægðir.... ég er samt ekki alveg viss um hvort þeir voru meira ánægðir með sigur Íslands í handboltaleiknum, eða það að hafa fengið dýrindis góðan morgunmat hjá Guðrúnu.

Úrslitaleikurinn var á mjög óheppilegum tíma fyrir okkur. Hann byrjaði kl. 2:45 aðfaranótt sunnudags. Enginn kom í heimsókn þá.... enda allir í Minnesotastrím farnir að sofa kl. 10 að kvöldi. Við Guðrún og Atli horfðum þó að sjálfsögðu á leikinn. Lítið var um dýrðir í þeim leik! Jon... nágranni okkar ætlaði reyndar að horfa á leikinn með okkur en hann sofnaði kl 2 eftir miðnætti. Við Atli erum búnir að kenna honum handbolta, og fórum með hann í vítakeppni í gær..... en hann gat nú ekkert í því og sagði bara BEINT... RASSGAT í hvert skipti sem hann klikkaði á skoti. Hins vegar kom hann til mín í morgun og óskaði mér til hamingju með silfur verðlaunin. Hann sagði að það fyrsta sem hann gerði þegar hann vaknaði hafi verið að kíkja á netið og tékka á úrslitunum í leiknum. Svo sagði hann frá því að honum hafi dreymt handbolta um nóttina. Hann sagði: „mig dreymdi að Ísland hafi verið 28 mörkum yfir í hálfleik... en svo klúðruðu þeir því niður og töpuðu í restina"...... ég er reyndar ekki alveg viss um að honum hafi verið að dreyma handbolta (frekar körfubolta). Það er fjári erfitt að vera 28 mörkum yfir í hálfleik... hvað þá að tapa því niður!

Við sættum okkur þó alveg við silfrið... enda er Ísland jú „stórasta land í heimi"

Kv... Þórir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bestu þakkir fyrir lesninguna í DV, frá okkur skötuhjúunum í Þingholtshreppi, mögnuð af þér áran á prenti, gangi þér sem best við skrif og nám og bara allt saman og hlýjar kveðjur til frú Guðrúnar.

Vilborg og Björgvin (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 23:39

2 identicon

Þórir hann er rosa töff

myndast vel í framan

eldist eins og Jói Töff

og eykst þá búta salan

Rocco the great lover from selfoss (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 18:53

3 identicon

Var í Kína.  Er búinn að reyna að nálgast þetta DV viðtal á vefnum en það finnst ekki.  Held að öllum eintökum af þessu blaði hafi bara verið brennt :(

Bjössi Arngríms (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 09:11

4 identicon

Það spurning um að nýta sér sambönd sjálfs blaðamannsin Bjössi minn. Ég skal senda Þóri viðtalið á pdf skjali. Hann getur þá sent þér það eða birt það á síðunni.

Kær kveðja, Kolla

Kolbrún Pálína (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband