á 65 km/h á reiðhjóli!....

Lífið gengur sinn vanagang í Minne-sota-strím. Sólin skín og fuglarnir gala. Á laugardaginn er sumardagurinn fyrsti hjá okkur í Ameríkuveldi. Kominn tími til, enda óvenju milt vor þetta árið. Annars er búið að vera frábært veður á Íslenskan mælikvarða að undanförnu og 25°c daglega. Framundan er ekkert nema meiri blíða og nú er langtíma spáin með alla daga vel yfir 80°F sem þýðir að við förum að nálgast 30° íslenskum sem er nokkuð standard fyrir sumarhita hér. Við erum þó ekki búin að fá neinn +90°F ennþá...... en það hlýtur að fara að koma fljótlega. Heyskapur gengur með prýði í Bethesda setrinu, og sláttuvélin mallar mjúkt eftir að hún kom úr viðgerð. Það er skógur rétt hjá húsinu okkar þannig að á kvöldin heyrum við vel í alls konar dýrum, svo sem sléttu-úlfum, uglum, fullt af fuglum, kalkúnum, krybbum, álfum og huldufólki, þursum, drekum, dvergunum sjö, kiðlingunum sjö, kóngsdætrunum 12, geirfuglunum......... svo fátt eitt sé nefnt.   

Ég er búinn að vera nokkuð duglegur að æfa frá skólalokum. Sérstaklega er ég búinn að vera duglegur að synda, og nú syndi ég svo hratt og langt að enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Ég er ekki búinn að vera eins duglegur að hjóla, en ég bætti þó hraðametið mitt á hjólinu um daginn. Kom því upp í 65 km/h. Það var niður brekku og undan vindi............... og rosa gamann. Stefni að því að komast upp yfir 70 km/h næst, þá nefnilega gæti ég átt það á hættu að löggan myndi stöðva mig fyrir of hraðan akstur því að hámarks hraði þarna í umferðinni er 70........ það væri nú magnað!!  

Það sem ég er ekkert að vinna og hef lítið annað að gera en að horfa á EM í fótbolta þá ákvað ég að taka sumaráfanga í skólanum. Ég fer í skólann einu sinni í viku, á þriðjudagskvöldum. Það er ágætt! Það er létt og gott andrúmsloft og þetta kemur til með að létta af álaginu hjá mér á lokaönninni minni í feb. – maí á næsta ári, áður en ég útskrifast.  

 

Síðustu tvær vikur eru búnar að vera svolítið skrýtnar. Ein besta vinkona Guðrúnar, sem m.a. á bústað rétt hjá  okkur á Pelican Lake og kom okkur í kynni við þann stað, greindist með ristils krabbamein sem er búið að dreifa sér í lifur, eggjastokka og víðar í kviðarholið. Guðrún er búin að vera að hjálpa henni mikið og hún aðstoðaði hana m.a. með að komast að á Mayo clinic til að fara í 2. opinion. Hún var þar einmitt í dag og á að byrja í fyrstu lyfjagjöfinni á morgun.  Hún heitir Gloria, er gift og á tvö uppkomin börn og svo einn strák sem  heitir Bauer og er jafn gamall Gísla og þeir tveir eru bestu vinir. Bauer er búinn að vera hjá okkur nokkrum sinnum síðustu tvær vikur og Gloria er líka búin að koma nokkrum sinnum í heimsókn. Það er svolítið sérstakt fyrir mig að umgangast fólk sem hefur verið nýgreint með krabbamein. Það er allt öðruvísi en að tala við fólk sem er búið að vera með sjúkdóminn lengi. Til dæmis að umgangast Þórdísi Tinnu og tala við Ástu Lovísu, Lóu blómarós og fleiri var mjög sérstakt, því að þeim öllum fylgdi ólýsanleg ró og sátt við lífið og tilveruna..... og einhvernskonar styrkur sem geislaði af þeim. Ég held..... (ég veit) að ég er svoleiðis líka. En það er öðruvísi þegar ég tala við Gloriu. Hún hvefur gríðarlegan áhuga á því að vita hvernig ég komst í gegn um mína baráttu. Hún til dæmis skilur ekki hvernig ég get farið á fætur á hverjum degi, vitandi það að ég sé með krabbamein í hausnum sem gæti verið komið af stað aftur hvenær sem er.  Þetta eru allt eðlilegar spurningar og vangaveltur. Það er ekki hægt að sjá mikla ró né sátt hjá henni sjálfri heldur. En það á örugglega eftir að koma, hún er einstaklega sterk og klár manneskja sem er vön að gera allt fyrir alla. Ég veit að við eigum eftir að eiga fullt af áhugaverðum samtölum á næstu vikum.  Gloria er með bloggsíðu sem hún skrifar fréttir af sér og linkurinn á hana er http://www.caringbridge.org/visit/glorialudgate og ég er líka búinn að bæta henni við á listann yfir aðra bloggara hér til vinstri. Sendið henni endilega baráttukveðjur frá Íslandi!

 

Jæja…………. Við erum að fara “up north” til Pelican Lake um hádegi á morgun. Verðum þar á þeim sælustað alla helgina. Best að fara að finna sig til fyrir það (eða láta Guðrúnu gera það….. á meðan ég þykist vera að gera eitthvað annað)

 

Góða helgi…. Þórir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Gott að vita að þú ert á lífi.  Var farinn að óttast að þú hefðir fengið flog á einni sundæfingunni og hefðir magalent þar sem þú syndir eins og fuglinn fljúgandi. Ég og mín fjölskylda biðjum fyrir baráttu- styrktar- og batakveðjur til Gloriu.  Vonum að allt fari vel þar.

þar sem engar fréttir hafa borist af bátnum þínum né þínum hæfileikum til að sigla honum geri ég ráð fyrir að mínar fyrri spár hafi ræst og báturinn sé ónýtur.

Biðjum að heilsa

Bjössi Arngríms (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 08:47

2 identicon

Mikið var Þórir að loksins heyrist frá þér. Eg hélt hreinlega að 'Isbjörn hefði kannski leynst í skóginum með Mjallhvíti og öllum þarna vinum þínum. Baráttukveðjur til Gloriu (kann ekki að skrifa á útlensku ) svo þú verður bara að senda fyrir mig kveðju.  hafið það sem best um helgina. kv Guðný Sig

Guðný Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 11:18

3 identicon

hæhæ, leiðinlegt að heyra með Gloriu! , mér var svo hugsað til ykkar í gær því þá var akkurat ár síðan ég kom út til ykkar! mikið líður tíminn hratt..

mamma, pabbi og rakel biðja rosa vel að heilsa :) 

aníta (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 13:22

4 identicon

Sæll frændi, tek undir orð Bjössa, þar er mikið að lífsmark er með þér. Maður fer í stress ef ekkert heyrist. Héðan er allt gott, stutta íslenska sumrinu fer senn að halla enda sumarsólstöður á morgun og þá fer dagurinn aftur að styttast.

Finnst vanta greiningu á hvað hrjáði sláttuvélina hjá þér. Hef grun um að þú hafir ekki mikið vit á svona græjum.

Annars er ég rétt að ná mér eftir margra daga hátíðarhöld, komum að norðan í fyrradag eftir margra daga djamm. Tímamótin ekkert smá - 25 ára stúdent frá MA, eitthvað sem enginn skilur nema sem hefur gengið í alvöru skóla.

Pabbi er lagstur í ferðalög. Fékk fiðring þegar fréttir bárust af varpi um daginn og fór og sótti egg út í ey í vor og sendi að sjálfsögðu fötu til minna manna, sem allir háma í sig af bestu list.  Hann og Bjarni bróðir hans fóru á bjarg og Siggi frændi seig fyrir þá.

Svo lagði svo strax upp á húsbílnum þegar við fórum frá Akureyri og tilkynnti að hann væri farinn austur í hverfi og kæmi til baka eftir helgina. Hann er ótrúlega hress og duglegur.

Sendum okkar bestu kveðjur til ykkar allra úr yndislegri miðnætursól á Ísalandinu.

Sirra og co.

Sirra og co (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 00:44

5 Smámynd: Inga María

Það er augsýnilega hægt að venja sig við allt...ró og innri styrkur kemur með tímanum og það að taka einn dag...eina klukkustund í einu. 

Kveðja frá ektakvinnu manns með samskonar heilaæxli og þú! 

Inga María, 22.6.2008 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband