Ég er listamaður......

Ekki það að ég sé snillingur í myndlist eða þess þáttar. Oooooooo-nei! Hins vegar er ég þannig forritaður að ég fúnkera engan veginn nema ég hafi lista yfir allt sem ég þarf að gera á hverjum dagi. Það er ekki það að ég sé með svo lélegt minni. Heldur felst í því einhver ólýsanleg ánægja að strika yfir hluti á listanum sem ég er búinn að klára. Til dæmis þegar ég var búinn í prófunum þá gekk ég um húsið, bílskúrinn, garðinn o.fl. með blað og penna og skrifaði niður alla hugsanlega (og óhugsanlega) hluti sem ég gæti gert í sumarfríinu. Sumt sem er á listanum geta flokkast undir smáatriði..... önnur eru stórverkefni. Ég endaði með 82 verkefni sem ég gæti tekið mér fyrir hendur!!!. Nú þegar er ég byrjaður að vinna í listanum og hann hefur skroppið verulega saman. Nú eru ekki nema 56 verkefni eftir!!! Ég er því án efa gríðarlegur listamaður!!!

Edda (systir Guðrúnar) og Davíð (maður hennar) og Arnór Daði (strákurinn þeirra) komu til okkar í síðustu viku. Þau komu að sjálfsögðu hlaðin af íslensku góðgæti, svo sem, flatbrauð, harðfist, lifrarpylsu, nammi af öllum stærðum og gerðum, malt, mix, KEA skyr, hangikéts álegg og ég veit ekki hvað og hvað......... Að vanda var það allt saman vel þegið og vinnum við hú hörfðum höndum í að éta það upp til agna.

Við vorum búin að fá lánað ferða-barnarúm fyrir Arnór Daða og um kvöldið fóru Edda og Davíð að reyna að setja rúmið saman. Það gekk heldur brösulega. Með semingi báðu þau um aðstoð frá hálfum heila húsbóndans. Ekki er að spyrja að því að það tók mig einungis nokkrar sekúntur að setja saman rúmið. Varð mér því að orði:„Oft veltir hálfur heili þungu hlassi".

Við fórum loksins okkar jómfrúmar ferð þetta árið til Pelican Lace. Þar var aldeilis guðdómlega dásamlegt. Sleiktum sólina, fórum út á bát að veiða, sigldum yfir vatnið og fórum á fyrsta Elvis show sumarsins, borðuðum mikið, skemmtum okkur mikið......... allt eins og það á að vera. Förum aftur um næstu helgi.... og helgina þar á eftir.... og helgina þar á eftir.... og helgina þar á eftir. Best að ég byrti nokkrar Pelican myndir hér á síðunni á næstunni.

Að lokuð.... ég keypti mér nýja sláttuvél í fyrra eftir að við fluttum í nýja húsið og notaði hana í ca. Tvo mánuði áður en ég lagði henni fyrir veturinn. Fjári góð TORO sláttuvél. Á henni stendur skýrum stöfum „Guaranteed to start in first or second pull" Það er frábært!! Ég á hins vegar í smá vandræðum með hana núna eftir vetrardvalann. ÞAÐ ER EKKI NOKKUR LEIÐ AÐ KOMA HENNI Í GANG!!. Ég er búinn að reyna svo oft að kippa í spottann að ég er orðinn hrikalega massaður í hægri hendinni og hæra meginn í bakinu. Ég gafst upp og fór með hana í viðgerð í dag. Fæ hana tilbaka eftir tvær vikur, þá verður sjálfsagt orðinn frumskógur í garðinum okkar, og ekki lengur hægt að sjá í húsið fyrir grasi!!! En svo bregðast krosstré sem önnur tré!. Mér finnst að það hefði frekar átt að standa á sláttuvélinni  „guaranteed to start in first or second time you use it"

Kv... Þórir

Ps. Þessi pistill er ekki stafsetninga-leiðréttur þar sem Guðrún er stödd í Iowa fylki. Innsláttarvillur eru því örugglega þó nokkrar í pistli þessum. Ef eitthvað er óskyljanlegt semdið þá meil til Bjössa á netfangið bjossi@motor-mouth.is og hann sjá um allar útskýringar.


Ég á afmæli í dag.......

Það er ekki „fæðingardags-afmæli".... því það er í október. Í dag á ég annars konar afmæli! Í dag eru tvö ár síðan ég var greindur með heilakrabbamein. Í dag er ég þar með orðinn tvegga ára krabbameins survivor!....... og er þokkalega stoltur af því!

Þessi síðustu tvö ár í lífi mínu hafa verið gríðarlega lærdómsrík, og ég er búinn að læra margt um sjálfan mig, og um lífið sjálft. Eins og ég hef svo oft sagt áður, þá lít ég svo á að það að fá heilakrabbamein hafi ekki verið endirinn á mínu lífi...... heldur var það byrjunin á mínu lífi!

Í tilefni dagsins koma hér tvö góð You-Tube myndbönd sem að veita mér (og sjálfsagt fleirum) góðan innblástur. Vel má vera að ég hafi bent á þessi myndbönd einhvern tíman áður.... en aldrei er góð vísa of oft kveðin!

Þetta fyrsta er lag sem heitir „Maybe Tonight, Maybe Tomorrow". Þetta einhvers konar baráttulag fyrir okkur „survivors". Þetta lag er ég með inni á i-pod hjá mér. Þegar ég fer í líkamræktarstöðina okkar (LifeTime) þá er þetta ALLTAF fyrsta lagið sem ég hlusta á þegar ég fer að æfa. Það hjálpar mér að muna „af hverju" ég er að æfa. Frábært lag! Þess má geta að það er hægt að kaupa þetta lag á i-tunes og allur ágóði rennur til LIVESTRONG - Lance Armstrong Foundation.

 

Seinna myndband er frá LIVESTRONG - Lance Armstrong Foundation. Þetta er þeirra „manifesto" sem mundi á íslensku vera einhverskonar opinber yfirlýsing á því sem að þessi stofnun stendur fyrir, þeirra skoðunum, hugmyndum og hvað þau ætla sér að gera. Þetta er gríðarlega öflugt og áhrifamikið myndband og ekki sakar þessi líka fína íslenska tónlist sem er í bakgrunninum.

 

Að öðru leyti hef ég átt frábæra daga að undanförnu og helgin var frábær. Ég hef frá fullt af skemmtilegum að segja. Ég læt hins vegar þetta blogg og þessi You-Tube myndbönd njóta sín í dag.

Kv...Þórir


Dear Heaven.....

Í morgun kláraði ég síðasta prófið mitt í skólanum og þar með er ég kominn í frí og er formlega búinn með 1. árið og þar með hálfnaður með námið. Þetta eru búinar að vera ansi strembnar tvær vikur, en ég lifði þær af...... eins og allt annað. Aldeilis gott hjá mér! 

Guðrún er farin til Portland þar sem „International Quilt Market" er haldið þetta vorið.  Þar er hún að kynna sýn nýju snið og efni. Hún fór í gær og kemur aftur á mánudaginn næsta. Ég býst fastlega við því að hún haldi áfram að sigra heiminn! Aldeilis gott hjá henni!

Atli var þriðja árið í röð valinn í landsliðshóp Minnesota (já eða fylkisliðið) í sínum aldurflokki í fótbolta. Hann var valinn í 28 manna hóp. Sá hópur verður svo skorinn niður í 18 stráka sem fara og keppa fyrir Minnesota hönd í  keppni við önnur „Midwest" fylki í lok Júlí. Hann komst í þann hóp í fyrra og vonandi nær hann að komast í þann hóp aftur. Aldeilis gott hjá honum!

Einn nágranninn okkar tók fram sláttuvélina sína í síðustu viku og fór að slá garðinn sinn, fyrstur allra í hverfinu.  Ég fór og klæddi mig í gúmmískóna og labbaði til hans út í garð og mæli hvort að grasið væri komið upp fyrir hvítu röndina. Svo var ekki!.... og ég hundskammaði hann og sagði honum að það væri ólöglegt að slá nema grasið væri komið upp fyrir hvítu röndina! Hann hlustaði nú ekkert á mig, og ef til vill skildi hann mig ekki, sennilega því að ég hundskammaði hann á Íslensku! Hann sýndi hins vegar gúmmískónum gríðarlegan áhuga og sagðist aldrei hafa séð svona skó áður. Ég sagði honum RÉTTILEGA að á Íslandi væri enginn maður með mönnum nema að eiga gúmmiskó (gummy-shoes). Ég sagði honum líka að á Íslandi seldist fleiri gúmmískór heldur en Nike skór....... Hann trúði því! Svo hélt hann áfram að slá garðinn. Aldeilis gott hjá honum!

Svana skrifar alltaf annað slagið bréf og setur í gluggann hjá sér. Síðast skrifaði hún bréf til jólasveinsins sem að ég segði ykkur frá. Í síðustu viku skrifaði hún ansi gott bréf. Þegar ég spurði hana hver ætti að fá þetta bréf þá sagði hún „it is to God" Í bréfinu stóð eftirfarandi: 

              DEAR HEAVEN 

              I AM SORRY THAT I SWEARED AND USED TO „H" WORD

              LOVE SVANA

Þess má geta að the „H" word er „Hell". Skemmtilegt bréf..... sérstaklega byrjunin „Dear Heven". Aldeilis gott hjá henni!

Aldeilis gott í bili.... kv...Þórir


Of langt síðan ég hef borðað súra lifrarpylsu!

Var skrambi þreyttur fram eftir síðustu viku, meðan líkaminn var enn að ná áttum eftir flogið. Þurfti alltaf að leggja mig þegar ég kom heim úr skólanum, en á miðvikudaginn fannst mér ég loksins vera orðinn eðlilegur á ný...... og er sprækur sem aldrei fyrr núna. Ég er búinn að lesa mér töluvert til um svona Grand Mal flog og er búinn að komast að því að svona flogaköst eru miklu algengari heldur en ég hélt, og í mjög mörgum tilvikum finnst nákvæmlega engin ástæða fyrir svona flogi. Oft er þetta tengt við þreytu, svefnleysi, vatnsskort, ofreynslu, o.fl., o.fl. Nú svo náttúrulega er líka bara stundum tilfellið að tunglið er ekki á réttum stað miðað við sólina og það getur MJÖG oft leitt til svona flogs.

Ég er hins vegar viss um að ekkert að þessum ástæðum á við mig. Ég hef mínar hugmyndur um af hverju ég fékk þetta flog, og hér koma 10 helstu ástæðurnar:

1.            Þetta voru bara fráhvarfs einkenni frá því að vera á Pelican Lake

2.            Það er of langt síðan ég hef farið í fjallgöngu

3.            Guðrún sagði mér að Ástþór Magnússon væri orðinn forseti Íslands

4.            Það er of langt síðan ég hef komið í Mývatnssveit

5.            Mig dreymdi að ég hefði verið valinn besti skallamaður allra tíma í íslenskri fótboltasögu

6.            Það er sennilega orðið of langt síðan Heiðrún drottning fékk nýja kórónu

7.            Það er of langt síðan ég hef borðað súra lifrarpylsu

8.            Það er of langt síðan Leeds varð enskur meistari í fótbolta

9.            Það er orðið of langt síðan ég sá Bjössa nudda saman lófunum í fýsn og ákafa

10.          Ég er ekki búinn að vera nógu montinn að undanförnu

Og þá vendum við okkar kvæði í kross!!! Í lok Mars 2007 fór ég í fallhlífastökk í fyrsta sinn.Það var í Titusville, Florida. Þá voru um 10 mánuðir frá því að ég fór í heila aðgerðirnar. Það var mjög gaman og allt var þetta tekið upp á vídeó. Ég henti þessu inn á YouTube í dag og þið getið því séð og heyrt vídeóið hér að neðan. Þess má geta á myndbandinu má næstum því sjá Rocco the great lover from Selfoss, en hann stökk í felur þegar upptökuvélarnar fóru í gang því að hann skammaðist sín svo mikið fyrir að þora ekki að stökkva með mér. Þess má líka geta að á myndbandinu er ekki hægt að sjá Þröst, því að hann vildi frekar vera heima að borða beikon.

  

"Life is either a daring adventure........ or....... nothing at all!" 

Kv... Þórir


Grand Mal flog..... seinni hluti!

 

Það sem drepur mann ekki..... gerir mann sterkari! (samkvæmt því hlýt ég að vera hrikalega sterkur)

Atburðarásin í mínu lífi undanfarna daga er búin að vera mjög áhugaverð. Það hefur ýmist verið í ökkla eða eyra! Þar sem Guðrún var búin að útskýra atburðarrás miðvikudagsins út frá sínu sjónarhorni.... þá er best að ég segi nú mína sögu málsins, og því sem gerst hefur undanfarna daga.

Því miður get ég ekki sagt ykkur frá neinu sem gerðist..... því að ég missti algjörlega af því!. Ég man bara eftir því að ég fór út að hjóla, hjólaði í ca. 20 mín, kom aftur inn móður og másandi, sæll og glaður og settist niður fyrir framan sjónvarpið........ svo man ég bara eftir því að hafa vaknað inni í sjúkrabíl. Það tók mig smá tíma að átta mig á því hvar ég var þegar ég vaknaði. Ég fann hins vegar að ég var kyrfilega bundinn niður og var tengdur við alls konar leiðslur, og tæki og tól. Allt í einu heyrði ég svo sírenuvælið í sjúkrabílnum og þá fattaði ég hvar ég var. Ég var hins vegar sallarólegur þegar ég vaknaði, sá það að ég hlyti að vera í góðum höndum, en datt þó í hug að spyrja nokkurra spurninga. Fyrsta spurninginn sem ég spurði var að sjálfsögðu „hvað gerðist?" Gaurinn sem var með mér inni í sjúkrabílnum sagði mér að ég hefði fengið „grand mal flog" Hmmmmmm........ husgsaði ég..... ég hef greinilega misst af því!. Næst spurði ég „hvert erum við að fara?" Hann sagði að við værum að fara á bráðamóttökuna á Abbott sjúkrahúsinu. Jafnframt sagði hann mér að Guðrún væri á leiðinni með öðrum bíl og myndi hitta mig þar. „flott" sagði ég og þar með þurfti ég ekki að fá að vita neitt meira í bili. Ég held að ég hafi sofnað aftur... ég man a.m.k. ekkert fyrr en verið var að færa mig af sjúkrabíls-rúminu yfir í venjulegt sjúkrarúm inni á bráðadeild Abbott sjúkrahússins. Þá fann ég hvað ég var rosalega aumur í öllum vöðvum líkamans. Sérstaklega kálfavöðvunum og kjálkavöðvunum. Það var eins og ég hefði verið í meiri háttar átökum (sem akkúrat lýsir vöðvastarfseminni í grand mal flogi....... meiri háttar átök) Þegar Guðrún kom var ég vel vaknaður orðinn nokkuð hress, og fannst ekkert smá áhugavert að hlusta á hana lýsa því sem hafði gerst. Starfsfólkið á bráðadeildinni sá fljótlega að ég var orðinn borubrattur og eftir að hringt hafði verið í krabbameinslækninn minn var ákveðið að ég mætti fara heim. Ein hjúkkan minnti mig á að samkvæmt Minnesota lögum þá mætti ég ekki keyra bíl næsta hálfa árið. Ég jánkaði bara, vissi nú reyndar um þá reglu, en var ekkert að spekúlera í því meira. Svo fórum við heim.

Á fimmtudags morguninn þegar ég vaknaði leið mér eins það hefði verið keyrt yfir mig á vörubíl!!. Ég hef nú reyndar aldrei lent fyrir vörubíl..... en ég tippa á að manni líði einhvern veginn svona! Þvílíkar og aðrar eins harðsperrur ALLS STAÐAR og ég var svo slæmur í kjálkavöðvunum að ég gat ekki einu sinni tuggið mat, þannig að ég varð að lifa á súpu og prótein-shake þann daginn. Ég ákvað að fara ekki í skólann, og taka því bara rólega.

Á föstudaginn fór ég ekki heldur í skólann, því að þá átti ég að far a í blóðprufu og hitta krabbameinslækninn minn. Hann testaði mig í bak og fyrir en fann ekkert að mér, og ákvað svo að fyrst að ég væri nú á annað borð kominn á svæðið vildi hann athuga hvort hann gæti komið mér að í MRI. Það gekk eftir og þar var samstundis hægt að koma mér að. Hann sagði að eftir MRI mætti ég svo bara fara heim og hann mundi svo bara hringja í mig þremur klukkutímum síðar þegar væri búið að greina myndirnar. Mér leist vel á það og stökk í MRI (segul-ómun), og svo fórum við Guðrún bara heim aftur.

Þegar ég kom heim fór ég að skoða upplýsinga pappíra sem ég hafði fengið kvöldið góða  sem útskýrir Grand Mal flog. Þar kom fram að sá sem fengi þess konar flog mætti ekki keyra bíl og ekki synda næstu 6 mánuðina....... en jafnfram stóð að lokaákvörðun um það væri tekin af lækni viðkomandi.  Ég gat nú alveg sætt mig við það að mega ekki keyra, en að ég mætti ekki heldur synda fannst mér nú frekar skrítið. En sennilega er það nú ekkert sérstaklega sniðugt að fá Grand Mal flog þegar maður er ofan í sundlaug!.

Eftir hádegi fengum við símtal frá sjúkrahúsinu. Það var ein af aðstoðarlæknum Trusheims sem að tilkynnti okkur að MRI myndirnar hefðu komið mjög vel út, og allt væri mjög stabílt. Þetta MRI var líka mjög mikilvægt vegna þess að þetta er svokallaða „tveggja ára MRI" Það eru sem sagt rétt tæplega tvö ár síðan ég fór í heilaaðgerðirnar. Fyrstu tvö árin er venja að fara í MRI á 3 mán. Fresti til að fylgjast sem best með æxlinu. Núna hins vegar verður ekki eins mikil þörf á svona nánu eftirliti, þannig að næstu tvö árin fer ég bara í tékk á 6 mánaða fresti. ALDEILIS FRÁBÆRAR FRÉTTIR!!!. En....... það átti eftir að batna!! Rétt áður en aðstoðarlæknirinn ætlaði að kveðja okkur, ákvað ég að spyrja hana út í það hvort ég mætti halda áfram að keyra. Hún sagði að samkvæmt Minnesota lögum þá mætti ég ekki keyra í 6 mánuði. „Ég veit" sagði ég en benti henni svo á það að ég hefði lesið að ákvörðunarvaldið væri þó hjá lækninum. Hún sagðist ekki þora að svara en sagði ætla að ræða málið við Trusheim og hringja svo aftur í mig.  Ég glotti!!!!!! Það sakar ekki að reyna.... sagði ég svo við Guðrúnu.

Um hálftíma síðar hringdi aðstoðarlæknirinn aftur og sagði mér að Trusheim, læknirinn minn, liti á þetta sem einstakt tilvik og ekkert sem benti til þess að ég fái annað svona flog. Þar af leiðandi væri því ekkert til fyrirstöðu að ég héldi áfram að keyra, synda, hjóla eða hvað sem mér dytti í hug að gera. ALDEILIS FRÁBÆRAR FRÉTTIR!!!

Ég tók því svo bara rólega um helgina. Í morgun fór ég í skólann eins og vanalega..... keyrandi....... ha,ha! Það var reyndar stuttur dagur hjá mér. Seinni partinn klæddi ég mig svo í hjólagræjurnar og fór út að hjóla. Ég hjólaði sömu leið og kvöldið góða, fór bara aðeins hægar og drakk meira vatn á leiðinni. Það gekk bara vel....... það er a.m.k. ekki búið að þurfa að hringja í 911 ennþá... he,he.

Lífið heldur áfram... þetta atvik hefur lítið raskað minni einstöku sálarró. Ég er búinn að læra að yfirleitt hefur maður ekkert að segja  um það hverju lífið hendir í áttina að manni. Það er alveg sama hvort  sem  það er krabbamein, fráfall ættvina, Grand Mal flog, eða skráma á hnéð, þá þýðir ekkert að berjast á móti því. Fyrr eða síðar þarf maður að sætta sig við orðinn hlut. Raunveruleikinn er „NÚNA" og það er ekki hægt að berjast gegn honum, maður verður að sætta sig við hann og gera það besta úr honum.  Um leið og ég ákvað að sætta mig við þá staðreynd að ég væri með krabbamein, var „turning-point" í mínu lífi. Um leið ákvað ég að hætta að líta á mig sem „Þórir með krabbamein" og byrja að líta á mig sem „Þórir Krabbameins survivor".  Sem krabbameins survivor er mér ekkert ómögulegt, og enn og aftur segi ég að mitt líf er miklu ríkara og betra eftir krabbameins lífsreynsluna. Þetta Grand Mal flog er ekkert annað en enn einn kaflinn í mínu lífi. Þetta var hlutur sem bara gerðist, hlutur sem ég bað ekki um. Ég get ekki annað en sætt mig við að þetta gerðist, taka því opnum örmum og læra af því. Þetta olli mér engum skaða, og því sé ég engann tilgang í að velta mér frekar upp úr þessu né hafa áhyggjur af því að þetta gerist aftur. CASE CLOSED!

Ég lít gríðarlega björtum augum á framtíðina og get ekki beðið eftir því að komast að því hvað morgundagurinn hefur í farteskinu.

Kveð að sinni..... Þórir


Big Shocker!!

Guðrún Erla skrifar:

Nú þegar eru aðeins um tvær vikur í næstu myndatökur hjá Þóri, fengum við mesta sjokk ársins í gær....

...Þórir kom heim úr skólanum í gær um sex leytið og var löngu búinn að ákveða að drífa sig nú út á keppnishjólið og fara í fyrsta hjólatúr sumarsins. Veðrið er búið að vera svo gott þessa vikuna. Hann hjólaði í um hálftíma , og ef ég þekki hann rétt var hann nú ekkert að fara rólega. Hann kom inn móður og másandi, hlammaði sér í stólinn á móti mér þar sem ég var að horfa á fréttirnar. Örfáum mínútum síðar hrekk ég svo við er ég sé hann í svakalegum líkamlegum flogakrampa. „Grand Mal seizure" Kastið var með því lengsta sem ég hef heyrt um því hann var í fullkomnum líkamlegum krampa í 10-12 mínútur.  Ég hringdi strax í 911 á meðan ég reyndi að halda öndunarveginum hjá Þóri opnum, því hann átti mjög erfitt með það. Það var reyndar mjög erfitt að hagga honum þegar allir vöðvar eru í krampa, þannig að ég gat ekki annað en bara veitt honum stuðning. Rétt þegar það fór að slakna á líkamskrampanum hjá honum komu lögreglumennirnir og svo sjúkrabíllinn skömmu síðar. Þórir var enn algjörlega út úr heiminum þegar þeir keyrðu hann út, svaraði ekki neinu sem var sagt við hann né sagði neitt og þá var um 30 mínútur síðan krampinn hafði byrjað. Það var farið með hann á bráðamóttökuna niðri í bæ , Gísli var heima þannig að ég komst ekki með í sjúkrabílnum. Hann varð því miður vitni af öllu saman og var skiljanlega mjög sjokkeraður. Nágrannakonur mínar voru komnar á staðinn fljótt og það var strax komin í gang keðjuverkun um að ná í Svönu í fimleika, vera hjá krökkunum  og koma mér upp á sjúkrahús sem fyrst. Þegar við komum þangað var Þórir fullkomlega kominn út úr floginu og virtist í góðu ástandi, nema kvartaði verulega um verki í öllum líkamanum, enda engin smá átök sem áttu sér stað. Það fyrsta sem hann sagði var „Hvað Gerðist?" Hann hafði fengið töluverðan vökva í æð enda var hann orðinn verulega uppþornaður. Bráðamóttökulæknarnir höfðu samband við tauga- og krabbameinslækninn hans Þóris sem ávísaði aukinn skammt af flogalyfjunum og með það máttum við bara fara heim, með því skilyrði að bóka tíma sem fyrst hjá Truscheim. Læknirinn útskrifaði svo Þóri með því að segja okkur að samkvæmt Minnesota lögum, eftir að hafa fengið Grand Mal flog, þá má hann ekki keyra bíl næstu 6 mánuði!!!!!!

Þegar við komum heim beið okkar eðlilega spurningaflóð frá krökkunum og tók það langan tíma að róa þau niður. Þau eru náttúrulega orðin 2 árum eldri en þegar Þórir greindist en þá voru þau bara 4 og 6 ára og pældu nú ekki eins mikið í hlutunum og nú. Þau fóru seint að sofa eðlilega og því leyfðum við þeim að sofa út í morgun til að hafa tækifæri á að tala við kennarana þeirra og skólasálfræðinginn áður en þau komu í skólann. Það fór allt mjög vel og virðast þau vera mun rólegri núna. Við verðum bara að bíða og sjá, þangað til pössum við okkur bara á að svara öllum þeirra spurningum.

Þórir fer í blóðprufutékk í fyrramálið til að sjá hvort öll lyfja level séu ekki í góðu lagi. Truscheim vill ekkert flýta myndatökunum, enda eru bara 2 vikur í þær. Hann telur að ástæðan fyrir floginu þurfi ekki endilega að vera vegna einhverra breytinga á æxlinu, það geti alveg hafa orsakast bara af ofreynslunni og vökvaskorti. Þetta er samt sem áður í fyrsta skipti sem Þórir fær svona líkamleg flog sem gerir okkur eðlilega dálítið áhyggjufull. Við erum þó ákveðin í því að halda okkar striki í að taka bara einn dag í einu og njóta hans til fulls án þess að hafa áhyggjur af einhverju sem við getum ekki stjórnað.  Næstu mánuðir verða krefjandi sem aldrei fyrr þar sem Þórir má ekki keyra en það eru allir boðnir og búnir til að aðstoða okkur þannig að þetta hefst örugglega allt saman.

Þórir verður örugglega klár með sína hlið á sögunni fljótlega.

Kveð í bili eftir krefjandi dag......Guðrún Erla       

Stuttar fréttir frá Ameríkuhreppi

Allt gengur sinn vanagang hér í Ameríkuhreppi. Í dag var sögulegur dagur, þar sem að hitinn fór í fyrsta sinn á þessu ári upp fyrir 70°F, sem ku vera ca. 22° íslenskar. Það var nú aldeilis gott. Hér er allt að vakna til lífsins, grasið farið að spretta, fuglarnir syngja, dádýrin komin aftur, sléttuúlfarnir farnir að góla á kvöldin, ég er búinn að þrífa spari-gúmmískóna, og óðum styttist í fyrstu Pelican Lake helgina.

Guðrún er byrjuð að læra spænsku. Fer einu sinni í viku og finnst rosa gaman. Ég þarf hins vegar ekkert að læra spænsku. Ég kann nefnilega heilmikið í spænsku. Ég átti nefnilega plötuna með Kötlu Maríu í gamla daga og get ennþá sungið reiprennandi „lítill Mexíkani með som-som brero"  Guðrún getur ekki beðið eftir því að við förum að fara aftur á Pelican Lake.

Atli er að fara að keppa á fótboltamóti á gömlum heimaslóðum Bjössa og Gunnhildar um helgina, til Illinois fylkis. Mótið verður í Rockford, IL og ég fer með og keyri hluta af liðinu í sjö-manna bílnum. Við förum á föstudag og komum til baka seint á Sunnudagskvöld. Ég er nokkuð vongóður um góð úrslit, enda eru Atli og co með gott lið. Markmaðurinn þeirra var reyndar á Englandi fyrir tveimur vikum á æfingum hjá West Ham. Eins gott að Björgúlfur láti hann nú í friði! Atli getur ekki beðið eftir því að við förum að fara aftur á Pelican Lake.

Gísli  fór á Stuttbuxum í skólann í dag. Hann er byrjaður af æfa fimleika með nýju liði. Það lið heitir Mini-Hops. Það er gríðarleg spenna. Hann er búinn að fara á tvær æfingar og finnst rosa gaman. Svo erum við búin að skrá hann á fótbolta æfingabúðir í sumar (þ.e. gamli góði fótboltinn).  Svo er líka búið að skrá hann í fótbolta æfingabúðir (þ.e. Amerískan fótbolta). Gísli getur ekki beðið eftir því að við förum að fara aftur á Pelican Lake.

Svana fór með húfu og vettlinga í skólann í dag. Hún, eins og mamma sín, gengur fyrir sólarorku (það þýðir að henni líður best í sól og 30° hita.) Er enn að æfa fimleika 9 klst í viku og ætlar að fara í blak æfingabúðir í sumar. Svana getur ekki beðið eftir því að við förum að fara aftur á Pelican Lake, og fara á Elvis!

Ég er ennþá í skóla! Verð búinn 13. Maí. Ég er ekki búinn að skrá mig í neinar sumarbúðir! Get ekki beðið eftir því að fara á Pelican Lake.

Over....and out!   Kv... Þórir

Ps. Aníta Torisson... þú fékst póst frá Lifetime með nýju „membership" korti. Viltu fá það sent til þín?


... ég er nefnilega að skrifa bók!

Að undanförnu er ég búinn að fá slatta af kommentum um að ég ætti nú að fara að drífa mig í að fara að skrifa bók. Ég hef hingað til ekki getað annað en brosað yfir því! Staðreyndin er nefnilega sú að frá því í byrjun þessa árs hef ég setið við skriftir. Í byrjun 2007 fór ég að hugsa um að ef til vill ætti ég að skrifa bók um mína krabbameins-lífsreynslu...... það tók mig sem sagt heilt ár að drattast til að byrja að skrifa.

Bókin er nú komin vel á veg. Hún segir sögu sem byrjar 26. Maí 2006..... daginn sem 'eg greindist með heila æxli. Ég ætla að segja nokkuð ýtarlega frá minni krabbameins lífsreynslu og þeim breytingum sem hafa orðið á mínu lífi síðan þá. Þótt að ég komi til með að lýsa þessari lífsreynslu, þá kemur þessi bók EKKI til með að verða „bók um krabbamein". Þetta kemur til með að verða „BÓK UM LÍFIÐ". Skrifin koma til með að vera á jákvæðum nótum, eins og minn stíll hefur verið hér á blogginu. Ég kem hins vegar ekki til með að fela neinar staðreyndir, og það verða fullt af tilfinningasveiflum sem koma til með að skína í gegn um lesturinn, og ég get líka lofað að það verður þó nokkuð af léttum húmor..... að vanda. Markmiðið með þessari bók verður að vekja fók til umhugsunar um lífið sjálft frá mörgum mismundandi sjónarhornum.

Ég er ekki kominn með neitt nafn á bókina, en er kominn með góðan stafla af nöfnum sem mér er búinn að detta í hug. Besta hugmyndin sem ég hef fengið kom hins vegar ekki frá mér heldur frá 11 ára krabbameins survivor sem kvittaði inn á síðuna hjá mér fyrir stuttu. Hún heitir Hanna Arnórsdóttir og stakk upp á bókarheitinu „Óður til Lífsins". Það nafn líst mér afskaplega vel á og þar til annað kemur í ljós.... þá verður þetta hér með vinnuheiti á bókinni.

Hvenær og hvort þessi bók verður einhvern tímann gefin út er óvíst að svo stöddu. Ef allt gengur að óskum þá ætti ég að vera búinn að skrifa bókina í lok ágúst. Næsta mál verður þá að reyna að komast að því hvort eitthvað vit og samhengi er í því sem ég hef skrifað, eða hvort allt sé eintómur leirburður. Ef ég verð sáttur við útkomuna og fæ jákvætt feedback frá þeim sem ég læt lesa yfir bókina, þá eru allar líkur á því að ég láti til skarar skríða og láti gefa bókina út. Ef allt fer samkvæmt áætlun þá er aldrei að vita nema að bókin felist einhvers staðar í jólabókaflóðinu fyrir næstu jól...eða einhvern tímann á næsta ári...eða þarnæstu jól...! Hver veit svo nema bókaútgáfa Guðnýjar tryggi sér útgáfuréttinn á svona alvöru bók!

Ég fer bráðum að birta svona glefsur úr bókinni, til að halda mér.... og ykkur við efnið.

Þetta voru fréttir dagsins!

Kv... Þórir

 

Ps. Rocco the great lover from Selfoss.. Ég sá að Bjössi hrósaði þér fyrir kommendið sem þú skrifaðir síðast. Ekki nema vona...Þú ert farinn að verða eins og Bjössi..... þ.e. farinn að skjóta sjálfan þig í fótinn!. SKO.. ef að báturinn sekkur og Lykla Pétur spyr við gullna hliðið..." hvað var klukkan þegar þið drukknuðuð.....", þá lít á á úrið mitt sem ég keypti í Target fyrir 25 dollara. Það er að sjálfsögðu svo lélegt að það stoppaði um leið og ég lenti í vatninu. Þar með get ég mjög einfaldlega svarað spurningunni hjá Lykla Pétri og hann hleypir mér inn um hliðið. (he,he)


Endurgreiðsla frá Bank of the Universe

Fyrir viku borgaði ég 20 dollara í Target fyrir unga snót sem ég þekkti ekki neitt og sagði henni að ég ætlaði að fá endurgreitt frá Bank of the Universe...... Í dag fékk ég endurgreitt!

Ég var í löngu hádegishléi í skólanum í dag og mér datt allt í einu í hug að hringja í Guðrúnu og athuga hvort að hún vildi ekki hitta mig einhvers staðar og borða með mér hádegismat. Það eru reyndar um 40 mínútna akstur að heiman í skólann...... en engu að síður þá höfum við nú nokkrum sinnum hittst svona í hádeginu. Guðrún hins vegar var að borða þegar ég hringdi þannig að hún nennti ekki hitta mig. Þá voru góð ráð dýr!. Ég gat ekki hugsað mér að borða í skóla mötuneytinu (sem heitir „Food for Thoughts"). Sá matur er ekki mjög góður, og ætti ekki sénst í góðgætið sem ég fékk í mötuneytunum í Skútustaðaskóla, Laugum, Laugavatni og Kröflu.

Hvað um það...... ég var svangur og ákvað að stökkva út í bíl og keyra eitthvað og athuga hvort að ég gæti ekki fundið mér eitthvað í gogginn. Ég keyrði í ca 5 mín. út úr miðbænum og sá þá bunka af veitingastöðum. Þar á meðal sá ég LeeAnn Chin skyndibitastað. Ég var ekkert smá ánægður með það því að þar er frábær réttur sem heitir „Bankok curry chicken". Glaður í bragði lagði ég bílnum og hélt svo inn til að fá mér að eta. Þegar ég kom þangað inn fannst mér eitthvað vera skrýtið. Ég fattaði ekki alveg hvað það var en þegar ég sá matseðilinn þeirra, hugsaði ég: hmmmmmm.... nýr matseðill! Með mínum gríðarlega lestrarhraða leit ég yfir matseðilinn og sá að það var hvergi á honum að finna „Bankok curry chicken" Hver fjandinn.... hugsaði ég....... en á því sama augnabliki gerði ég mér grein fyrir af hverju mér fannst allt svona skrýtið þarna inni! ÉG VAR Á VITLAUSUM VEITINGASTAÐ!!!!. Bankok curry chicken fæst á stað sem heitir „Noodle´s and Company"...... en ég var staddur á LeeAnn Chin. Frekar heimskuleg mistök.. Það mætti halda að það vantaði eitthvað í heilann á mér!!

Engu að síður fékk ég þó ágætis asískan man á LeeAnn Chin, og át hann upp til agna. Eftir að hafa sagt „doi,doi,doi,doi,doi,doi" gekk ég út, og í átt að bílnum. Þegar ég nálgaðist bílinn sá ég allt í einu peningaseðil liggja beint fyrir framan mig. Ég beygði mig niður og tók hann upp.... og viti menn.... þetta var 20 dollara seðill!!! Ég trúði ekki mínum eigin augum!!!! Ég hafði fengið greitt frá „Bank of the Universe"  Þetta var alveg eins og í bíómynd.... það hefði örugglega verið spiluð dramatísk tónlist þegar ég tók upp peninginn!!!!!

Þetta fannst mér mjög merkilegt.... sérstaklega því að ég var á þessum stað og þessum tíma fyrir algera tilviljun. Ætlaði að fara út að borða með Guðrúnu.... fór á svæði sem ég hef aldrei farið á áður.... og fór þar að auki óvart á vitlausan veitingastað. Flestir myndiu sjálfsagt kalla þetta heppni, en fyrir okkur sem höfum lesið „the Secret" þá heitir þetta nú bara „the law of attraction"

 

Kv... Þórir

Ps. Hanna Arnórsdóttir kvittaði hjá mér þann 28.mars. Ef þú lest þetta Hanna viltu þá vera svo væn að senda mér tölvupóst með netfanginu þínu. Ég þarf að segja þér svolítið sniðugt!

Pss. Heiðrún.... komdu bara í heimsókn til Minnesotastrím. Þá geturðu farið í búðir og grætt miklu meira en 20 dollara, því að hér er allt svo ódýrt! Svo getur þú bara hundskast til að kaupa þér sjálf nýja kórónu!

Psss. Bjössi... Þú værir miklu fyndnari ef þú værir Voggi!

Pssss. Rocco the great lover from Selfoss..... Ég á kannski ekki Rolex, en ég veit samt hvað klukkan er. En getur þitt Rolex flotið á vatni, tekið 9 farþega, og farið með þig á Elvis Show?


Bank of the Universe

Við fjölskyldan skelltum okkur að vanda til Florida um páskana. Þetta var 4 árið í röð sem að við gerðum það, þannig að þetta er orðið árlegt hjá okkur. Við vorum í viku og þetta árið komu Gísli og Emma (tengdó) með okkur og líka Bjarki Þór (Sævars-Þórs-Gíslasonar). Ég reyndar kom fyrr heim. Ég kom heim á mánudagskvöld þar sem að ég byrjaði í skólanum aftur á Þriðjudagsmorguninn. Þannig að ég var bara 5 daga í sólinni. Restin af fjölskyldunni er á leiðinni heim akkúrat núna þegar þetta er skrifað (á miðvikudagskvöldi) og ég er að fara eftir klukkutíma út á flugvöll að sækja þau. Ferðin var að sjálfsögðu frábær, og kærkomin tími til afslöppunar.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að blogga núna er sú að ég var að upplifa mjög skemmtilegan hlut. Ég stofnaði nefnilega banka áðan. Ég stofanaði Bank of the Universe...........

Ég fór í Target áðan til að kaupa smá mat handa þeim þreyttu ferðalöngum sem eru að koma heim frá Florída. Target lokar kl. 10 að kvöldi og klukkan var rétt að smella í lokunartíma. Það voru fáir eftir í búðinni og fyrir framan mig á kassanum var ung dama sem ég hef aldrei séð áður, sjálfsagt ca. 20 ára sem var að borga með debetkortinu sínu. Það gekk hins vegar eitthvað illa og hún fékk ekki heimild á kortið. Þar sem hún var ekki með neina aðra peninga til að borga, baðst hún afsökunar og sagðist bara þurfa að koma aftur á morgun og kaupa þetta þá. Ég sá að heildarupphæðin hjá henni var um 20 dollarar. Þannig að ég sagði við dömuna að ég skyldi borga fyrir hana. Hún horfði á mig eins og ég væri eitthvað skrítinn, og sagði svo „nei takk.... þetta er allt í lagi, mig vantar þetta ekkert sárlega". Þá sagði ég við hana „Jú, ég ætla að borga...en leyfðu mér að útskýra. Ég ætla að borga fyrir þig en þú þarft ekki að borga mér aftur! Það þýðir samt ekki að ég ætli að gefa þér peningana. Hugsaðu frekar bara  að þú sért að fá lán frá „Bank of the Universe". Þessu fylgir sú kvöð að næst þegar þú lendir í þeirri aðstöðu að þú sérð einhvern sem að vantar peninga, þá borgar þú þeirri persónu 20 dollara. Þar með ert þú búin að borga lánið við „Bank of the Universe" og þú segir þessa sömu sögu við þá persónu sem að þú lánar peningana"  Daman horfði á mig þögul og sagði svo eftir langa þögn.  „Hver kemur þá til með að borga þér til baka?"  „Ég hef bara trú á því að ef að ég lána þér núna 20 dollara, þá komi ég til með að fá þann pening endurgreiddan frá einhverjum öðrum á einn eða annan hátt", sagði ég. Hún horfði ennþá á mig og hugsaði. Ég held að þú sért ruglaður, en þetta meikar samt sens. Afgreiðsludaman greip inní og sagði „þetta er sniðugt!" Ég borgaði svo 20 dollarana fyir dömuna, sem að marg þakkaði kærlega fyrir sig og hvarf í burtu brosandi. Þegar ég var búin að borga mínar vörur sagði afgreiðsludaman við mig „ég er nú búin að vinna hér í 6 ár, og það gerist ekki margt eftirminnilegt hér í vinnunni. En þetta sem þú gerðir og þessi saga um Bank of the Universe kemur til með að verða mér mjög minnistæð.

Niðurstöður kvöldsins:

1.            Það er gaman að stofna banka

2.            Bara það að hjálpa þessari dömu og borga fyrir hana 20 dollara og sjá hana fara brosandi í burtu, var 20 dollara virði.

3.            Að heyra þetta hrós frá afgreiðslukonunni var a.m.k. 20 dollara virði

4.            Þegar ég gekk út úr Target leið mér ekkert smá vel í hjartanu..... það var a.m.k. 20 dollara virði

5.            Ég er a.m.k. strax kominn með 40 dollara andlegan hagnað....... það er ómetanlegt (for everything else, there is Mastercard)

6.            Ég hef enn 100% trú á því að samkvæmt „law of attraction" þá eigi mér eftir að áskotnast 20 dollarar, eða meira, á einhven hátt, mjög fljótlega........... og þá skal ég vera fljótur að láta ykkur vita af því!

7.            Nú er kominn tími til að fara út á flugvöll og sækja liðið

 

Kv... Þórir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband